10. desember. 2010 09:52
Ástrós Gunnlaugsdóttir, yngsti fulltrúinn á stjórnlagaþingi, hefur ákveðið að kalla saman hóp af ungu fólki til að vinna með sér fyrir þingið. Ætlun hennar er að safna saman hugmyndum ungs fólks og sýn þess á nýja stjórnarskrá. Í vinnuhópi Ástrósar verða 10-12 manns af öllu landinu. Leggur hún áherslu á að fá ungt fólk utan höfuðborgarsvæðisins í hópinn, þar sem vægi landsbyggðarinnar á stjórnlagaþinginu er fremur lítið. Hún vonast líka til að fá í hópinn eitthvað af yngri frambjóðendunum sem komust ekki að í kosningunum. “Ætlunin er að hópurinn hittist tvisvar til þrisvar, ekki aðeins fram að stjórnlagaþingi heldur einnig meðan á því stendur. Vinnan þess á milli mun fara fram á netinu,” segir Ástrós. Facebook síða Ástrósar verður miðpunktur umræðunnar og þar verða hugmyndir og tillögur viðraðar og kallað eftir fleiri skoðunum.
Ástrós er 24 ára en meðalaldur fulltrúa á stjórnlagaþingi er 50 ár. „Ég tel nauðsynlegt að sýn ungs fólks á stjórnskipun landsins fái vægi á stjórnlagaþinginu. Það er mikilvægt að hafa bakland í þeirri umræðu og það tel ég mig fá með hugmyndum og rökstuðningi þessa hóps,“ segir Ástrós Gunnlaugsdóttir.