15. desember. 2010 11:34
Vegna smitandi hósta í hrossum var nauðsynlegt að setja tímabundið reglur um heimasóttkví útflutningshrossa til að uppfylla skilyrði Evrópusambandsins sem kveða á um að hross sem þangað eru flutt séu án sjúkdómseinkenna. Það sama á við um öll hross sem þau hafi umgengist undangengna 30 daga. Sextíu daga sóttkví á þó við um hross sem flutt eru til Bandaríkjanna. Í frétt frá Matvælastofnun segir að þetta fyrirkomulag hafi reynst vel og engar fregnir hafi borist um að veikin hafi komið upp í útfluttum hrossum. Aðeins örfá hross hafa ekki staðist heilbrigðisskoðanir og hefur útflutningi á þeim verið frestað. Þar sem lítið ber á hrossaveikinni hefur Matvælastofnun nú ákveðið að aflétta hinni formlegu heimasóttkví frá áramótum, með þeim fyrirvara að sjúkdómurinn blossi ekki upp á ný. Útflutningur hrossa hefur gengið vel í haust og hafa yfir þúsund hross farið utan nú í byrjun desember.