15. desember. 2010 01:01
 |
Óðinn Sigþórsson. |
Óðinn Sigþórsson, bóndi í Einarsnesi í Borgarfirði, hefur kært framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings til Hæstaréttar. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag. Telur hann að vikið hafi verið frá fyrirmælum laga um kosningar með alvarlegum hætti, bæði hvað varðar kosningaleynd og úthlutun sæta á þingið. Kjörklefar hafi ekki verið á kjörstað heldur var kjósendum gert að greiða atkvæði í opnu rými. Því hafi útbúnaður ekki verið fullnægjandi til að tryggja kosningaleynd og að kjósandi skuli vera einn og ótruflaður við kosningaathöfnina. Kjósendum hafi einnig verið bannað að brjóta saman kjörseðilinn. Auk þessa telur Óðinn að landskjörstjórn hafi verið óheimilt að úthluta þeim 14 stjórnlagaþingsfulltrúum sæti á þinginu sem ekki náðu tilskildum atkvæðafjölda, eða svokölluðum sætishlut. Því beri að ógilda kjörbréf þeirra fjórtán sem ekki náðu 3.167 atkvæða markinu og raunar einnig þeirra ellefu sem því náðu, því lög kveði á um að þingið skuli skipað 25 fulltrúum hið minnsta.