22. desember. 2010 02:30
Aðalheiður Rósa Harðardóttir, Karatefélagi Akraness, hefur verið útnefnd karatekona ársins 2010 af stjórn Karatesambands Íslands. Aðalheiður, sem er aðeins 17 ára gömul, hefur verið í landsliði Íslands í karate undanfarin tvö ár og keppt á mótum bæði innanlands og utan. Hún keppir í báðum greinum karate, kata og kumite og hefur náð góðum árangri í þeim en hún hefur keppt bæði í unglingaflokkum og í fullorðinsflokkum. Auk þess að vinna bikarmeistaratitil unglinga á árinu vann Aðalheiður meðal annars til fjögurra verðlauna á Stockholms Open mótinu í nóvembermánuði; gullverðlaun fyrir einstaklingskata og hópkata i junior flokki og silfur í hópkata og brons í einstaklingskata í flokki fullorðinna.
Þá var Kristján Helgi Carrasco í Aftureldingu útnefndur karatemaður ársins 2010 en þess má geta að einnig er hægt að rekja ættir hans á Skagann. Hann er barnabarn Skagahjónanna Helgu Guðjónsdóttur og Kristjáns Hagalínssonar. Kristján Helgi er landsliðsmaður í karate og keppir í báðum greinum karate, kata og kumite. Hann hefur náð góðum árangri á árinu bæði innanlands og utan en Kristján Helgi hefur keppt bæði í unglingaflokkum og í fullorðinsflokkum. Helsti árangur Kristjáns á árinu er bikarmeistaratitill fullorðna og bikarmeistaratitill unglinga, Íslandsmeistari í kata unglinga ásamt þremur verðlaunum á erlendum mótum.