24. desember. 2010 08:01
Alþingi hefur samþykkt samkomulag um úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson varaþingmaður Framsóknarflokks vakti hins vegar athygli á því þann 17. desember síðastliðinn að ekki geti allar fjármálastofnanir tekið þátt í þessari lausn. Byggðastofnun megi ekki samkvæmt lögum afskrifa lán. Sigurgeir Sindri segir ljóst að ef þessu verður ekki breytt geta fyrirtæki á landsbyggðinni, smærri rekstraraðilar og jafnvel bændur ekki fengið úrlausn sinna mála.
Núverandi fyrirkomulag geti leitt til þess að Byggðastofnum muni standa í vegi fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja á grundvelli þess að stofnuninni er óheimilt til að vinna með öðrum kröfuhöfum og afskrifa fjármuni sem klárlega eru tapaðir. Segist Sigurgeir Sindri vita af fyrirtækjum sem eru að vinna í niðurfellingu og afskriftum lána sinna í samráði við bankana en þetta mál sé hindrun.
Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra tók undir með Sigurgeir Sindra. Benti hann á að löggjafinn samþykkti í október í fyrra lög um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja í kjölfar banka- og gjaldeyrishrunsins. Í þeirri löggjöf er kröfuhöfum beinlínis heimilað að lækka skuldir til samræmis við endurmat þeirra. Sagði hann meðal annars að ef það væru einhver ákvæði í sérlögum um Byggðastofnun sem hindrar þátttöku hennar í skuldaúrvinnslu lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði að taka á því. “Í þessu verða allir að taka þátt. Það er mjög mikilvægt að lítil og meðalstór fyrirtæki leiti núna til viðskiptabanka sinna, leggi fram öll gögn og kalli eftir tillögum. Við eigum óskaplega mikið undir því að fyrirtækin geti bætt við sig verkefnum, aukið umsvif sín og bætt við sig fólki. Það verður að gerast hjá öllum fyrirtækjum, líka þeim sem eru með skuldir hjá Byggðastofnun,” sagði Árni Páll um þessi mál.