27. desember. 2010 08:01
Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að meðalútsvarshlutfall sveitarfélaga verður 14,41% á nýju ári. 66 af 76 sveitarfélögum leggja á hámarksútsvar en tvö sveitarfélög leggja á lágmarksútsvar. Staðgreiðsluhlutfall tekjuskatts og útsvars verður í þremur þrepum; 37,31%, 40,21% og 46,21%. Mánaðarleg tekjumiðunarmörk þrepa verða 209.400 kr. í fyrsta þrepi, 471.150 kr. í öðru þrepi og 680.550 kr. í þriðja þrepi. Persónuafsláttur hvers einstaklings verður óbreyttur eða 44.205 krónur að meðaltali á mánuði og skattleysismörk 123.417 kr. að teknu tilliti til 4% lögbundinna iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð.
Nánar um útreikning tekjuskatts
Tekjuskattur er lagður á í þremur þrepum eins og áður. Þrepin skiptast þannig að af fyrstu 2.512.800 kr. árstekjum einstaklings (þ.e. 209.400 kr. á mánuði) er reiknaður 22,9% skattur. Af næstu 5.653.800 kr. (471.150 kr. á mánuði) er reiknaður 25,8% skattur og síðan í þriðja þrepi 31,8% skattur af árstekjum umfram 8.166.600 kr. (680.550 kr. á mánuði) hjá einstaklingi. Sem fyrr segir hækka tekjuviðmiðunarmörkin um 4,7% milli ára í samræmi við tólf mánaða hækkun launavísitölu.
Meðalútsvar á árinu 2011 verður samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarfélaga í 14,41% í stað 13,12% á árinu 2010. Staðgreiðsluhlutfall ársins 2011 verður samkvæmt því þríþætt eftir fjárhæð tekna, þ.e. 37,31% á tekjur í fyrsta þrepi, 40,21% á tekjur í öðru þrepi og síðan 46,21% á tekjur í þriðja þrepi. Heimilt verður að skattleggja hluta tekna maka í miðþrepi í stað efsta þreps hafi tekjulægri makinn ekki nýtt miðþrepið að fullu, þó að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þegar sýnt þykir að heimild til slíkrar millifærslu hafi skapast geta samskattaðir aðilar óskað eftir endurreikningi á þeirri staðgreiðslu sem innt hefur verið af hendi og jafnframt endurgreiðslu hennar reynist staðgreiðslan of há. Slík endurgreiðsla getur þó ekki komið til fyrr en á síðasta ársfjórðungi og aldrei numið lægri fjárhæð en 50 þ.kr. eða hærri fjárhæð en 100 þ.kr.