28. desember. 2010 11:46
"Landnemaskólinn," námskeiði fyrir nemendur af erlendum uppruna, lauk nýverið á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands í samstarfi við Vinnumálastofnun. 18 nemendur stunduðu námið sem er virkniúrræði fyrir atvinnuleitendur. “Þetta er 120 kennslustunda námskeið þar sem námsefnið er íslenska, samfélagsfræði, tölvufærni og lífsleikni. Nemendurnir, sem allir eru búsettir á Akranesi og/eða í Hvaljfarðarsveit, eru frá fjórum löndum og hafa verið í atvinnuleit í lengri eða skemmri tíma. Sú nýjung var tekin upp til viðbótar náminu, að allir nemendur áttu þess kost að fara í ,,talþjálfun“ á vettvangi einu sinni i viku. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem þetta er framkvæmt á Íslandi, í tengslum við Landnemaskólann, en fyrirmyndin er frá Noregi,” segir Guðrún Vala Elísdóttir sem stýrði verkefninu.
Símenntunarmiðstöðin samdi við nokkur fyrirtæki og stofnanir á Akranesi um að einstaklingar gætu komið á vinnustað og þjálfast í að tala íslensku. “Markmiðið með þessu var að gera nemendum kleift að þjálfa talað mál á vettvangi, en margir hverjir hafa einangrast frá íslenskum vinnumarkaði og samfélagi og eiga þess ekki kost að tala við Íslendinga dags daglega. Ennfremur var markmiðið að byggja upp tengsl og leyfa fólki að spreyta sig í nýjum aðstæðum. Hver nemandi mætti alls í níu skipti á ákveðinn vinnustað og tókst vel í flestum tilfellum.”
Símenntunarmiðstöðin vill koma á framfæri þakklæti til þeirra vinnustaða og einstaklinga sem tóku þátt í verkefninu og gerðu þetta mögulegt. Landnemarnir voru útskrifaðir 17. desember við hátíðlega athöfn á Mömmueldhúsinu á Akranesi. Þeir kennarar sem komu að námskeiðinu voru Anna Lára Steindal, Shyamali Gosh, Ragnheiður Sigurðardóttir og Sigrún Ríkharðsdóttir auk Guðrúnar Völu verkefnisstjóra.