04. janúar. 2011 02:20
Hreppsnefnd Skorradalshrepps auglýsti á dögunum tillögu að aðalskipulagi fyrir hreppinn sem nær til ársins 2022. Þetta er fyrsta aðalskipulagið sem unnið er fyrir Skorradalshrepp, en að sögn Davíðs Péturssonar oddvita á Grund voru öll sveitarfélög í landinu skylduð til að ganga frá sínum skipulagsmálum fyrir árið 2010. Tafir hafa orðið á þessari vinnu fyrir Skorradalshrepps, m.a. vegna veikinda arkitektsins sem skipulagið vann. Í samtali við Skessuhorn sagði Davíð að bæði hreppsnefndin og skipulagsnefnd hreppsins væri mjög sátt við þá niðurstöðu sem fælist í skipulaginu, en síðan kæmi í ljós hversu margar athugasemdir bærust vegna þess, en skilafrestur þeirra er til 24. febrúar 2011. Það var Guðrún Jónsdóttir arkitekt sem vann skipulagstillöguna en henni til fulltingis við tillögugerðina var skipulagsnefnd Skorradalshrepps skipuð þeim Huldu Guðmundsdóttur á Fitjum, Jóni Einarssyni Mófellsstaðakoti og Pétri Davíðssyni á Grund.