Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
11. febrúar. 2011 02:54

Stjórnendur Landsbankans með opinn kynningarfund

Tæplega hundrað manns mættu á opinn kynningarfund sem Landsbankinn boðaði til í Bíóhöllinni á Akranesi í síðustu viku. Þar kynntu nýir stjórnendur bankans stefnu hans og framtíðarsýn, breytingar sem orðið hafa frá hruni og aðgerðalista bankans í því verkefni að snúa vörn í sókn. „Við viljum hlusta eftir skoðunum ykkar, eigenda bankans, til að efla bankann enn frekar. Við ætlum að vera Landsbankinn þinn,“ sagði Steinþór Pálsson bankastjóri með áherslu í ítarlegri kynningu sinni. Ásamt Steinþóri voru meðal annarra sjö lykilstjórnendur bankans með í för. Eftir kynningar svaraði bankafólk fyrirspurnum úr sal og var ekki laust við að heyra mætti bæði gagnrýnis- og efasemdaraddir í salnum.

Banki ekkert án samfélags

Steinþór Pálsson fór yfir þær breytingar sem orðið hafa frá því nýr banki var stofnaður af ríkinu á rústum þess sem fyrir var. Nýi Landsbankinn sé nú tveggja ára og þar hafi fljótt komið fram skýr krafa um endurnýjun starfshátta þessa eina ríkisbanka sem Íslendingar nú eiga. „Okkar hlutverk er að eyða þeirri tortryggni sem ríkir í garð bankans. Óhætt er að segja að traust í garð banka hafi horfið á einni nóttu,“ sagði Steinþór um þá viðhorfsbreytingu almennings í garð bankastofnana hér á landi, eftir að þeir urðu nær allir gjaldþrota í október 2008. Sagði hann að banki væri ekkert án samfélagsins og því þyrfti bankafólk að endurvinna traust almennings. Þá gagnrýndi Steinþór fjölmiðla fyrir að hafa ekki sýnt bönkum nægjanlegt aðhald í aðdraganda hrunsins.

Starfsmenn Nýja Landsbankans eru nú 1.150, en í gamla Landsbankanum voru 2.600 þegar mest var í tíð fyrirrennara hans. Eignir bankans voru taldar fjögur þúsund milljarðar fyrir hrun en eru nú um 1.000 milljarðar og eigið fé hans 180 milljarðar. Þar af setti ríkissjóður 120 milljarða í stofnefnahag við endurreisn hans. Rakti bankastjórinn þá vinnu sem starfsfólk hefði farið í við upphaf stefnumótunar sem fólst m.a. í að ræða við viðskiptavini um hverju þyrfti að breyta til að bankinn ætti þess kost að smám saman að vinna sér traust. Nú væri sú vinna hafin af fullum krafti og markmið bankans væri nú að árið 2015 yrði hann í fremstu röð banka á Norðurlöndunum. Skýrði hann út ýmis markmið sem sett hefðu verið.

 

Varfærnar spár um hagvöxt

Daníel Svavarsson forstöðumaður hagfræðideildar fór yfir stöðu og horfur í efnahagsmálum. Ræddi hann um atvinnuleysið og fór yfir skiptingu þess eftir landssvæðum. Mest væri það á höfuðborgarsvæðinu en minnkaði svo eftir því sem fjær drægi höfuðborgarsvæðinu og væri minnst þar sem þenslu gætti lítið sem ekkert árin fyrir hrun. Þá sagði hann að 7.000 manns hefðu flutt til annarra landa eftir hrun en það jafngilti 3,5% af mannafla á vinnumarkaði og þyrfti í raun að bæta þeirri tölu við núverandi atvinnuleysi til að fá rétta mynd af fækkun starfa. Daníel ræddi einnig þróun fasteignaverðs og gat þess meðal annars að fasteignaverð hefði hækkað hlutfallslega mest í þenslunni á Suðurnesjum og Vesturlandi. Nú sagði hann meðalverð á fasteignum á þessum svæðum enn 60% hærra en það hafi verið í ársbyrjun 2004.  Loks sagði Daníel að spár um hagvöxt hér á landi væru mjög varfærnar, ekki væri þess að vænta að hagvöxtur yrði mikill næstu misserin einkum þar sem litlar sem engar framkvæmdir væru í gangi.

 

Fast skotið

Að loknum framsöguerindum svöruðu forsvarsmenn bankans ýmsum spurningum fundargesta, sem voru um 80 talsins. Stefán Teitsson formaður stjórnar Akurs gagnrýndi meðal annars að fyrirtæki hans þyrfti að þola samkeppni við gjaldþrota fyrirtæki sem rekin væru í vörslu bankans. Slíkt gæti aldrei gengið til lengdar. Ólafur Adolfsson spurði hvernig stæði á því að ekki væri komin meiri og betri reynsla af nýju bönkunum rúmum tveimur árum eftir hrun. Sér fyndist hlutirnir ganga hægt í svokallaðri endurreisn þeirra. Taldi hann vörumerkið „Landsbankinn“ ónýtt sökum þess sem á undan hefur gengið. Síðan beindi hann orðum sínum að stjórnendum Nýja Landsbankans, spurði þá hvað þeir hefðu starfað við fyrir hrun og hvort þeir teldu sig trúverðuga stjórnendur í þeirri stöðu þegar bankinn þyrfti að endurvekja traust í sinn garð. Þá gagnrýndi hann ráðningu yfirmanns á upplýsingasvið bankans, en sami maður var skömmu áður yfirmaður í lyfsölufyrirtæki sem reyndi með ólögmætum hætti að bregða fæti fyrir nýja samkeppni. Fyrir það fékk viðkomandi lyfsölufyrirtæki 120 milljóna króna sekt frá samkeppnisyfirvöldum. Steinþór Pálsson brást til varna í þessari gagnrýni Ólafs. Sagði hann að virt ráðningafyrirtæki hafi verið fengið til að annast ráðninguna og hafi þetta orðið niðurstaða þess. „Við vorum ekki að ráða mann til að stýra lyfsölu hjá okkur heldur upplýsingatækni. Þarna var ráðinn maður með mikla reynslu og hafði hann meðmæli og starfsferil sem varð þess valdandi að hann bar af öðrum umsækjendum í þetta tiltekna starf,“  svaraði Steinþór.

 

Svör ekki á reiðum höndum við öllu

Ýmsar fleiri spurningar og athugasemdir voru bornar fram úr sal.  Meðal annars spurði Vilhjálmur Birgisson hvort bankinn gæti ekki beitt sér fyrir því að þeir sem töpuðu á peningamarkaðssjóðum gætu fengið íbúðalán lækkuð sem því næmi að minnsta kosti. Starfsfólk bankans svaraði því til að nú væri meiri aðskilnaður milli eignastýringar og sjóða bankans en var áður, en svöruðu ekki beint spurningunni hvort fólk sem tapað hefði á sjóðum í vörslu bankans gæti fengið leiðréttingu lána sem því næmi.

Jóhannes Snorrason spurði hversu stórt hlutfall starfsmanna Nýja Landsbankans hefði starfað í þeim gamla einnig. Svör við því lágu ekki fyrir.

 

Vill að ríkið eigi ráðandi hlut

Loks var spurt hvort einhver trygging væri fyrir því að Nýi Landsbankinn yrði ekki einkavæddur á nýjan leik. Steinþór Pálsson bankastjóri gat engu lofað um það, enda væri bankinn í eigu ríkisins og hefðu því stjórnvöld hverju sinni allt um það að segja. Sjálfur kvaðst hann mæla með þeirri aðferð sem Norðmenn hefðu farið fyrir um 20 árum síðan. Þar hefði norska ríkið ákveðið að halda eftir 35% hlut í Norske bank, stærsta banka landsins, og haldið þar með ráðandi hlut. Kvaðst hann sammála þessari leið því æskilegt væri að koma Landsbankanum aftur á markað þar sem slíkt myndi auka agann í rekstri bankans, miðað við að hafa hann 100% í eigu íslenska ríkisins.

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is