Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
18. febrúar. 2011 10:29

Skessuhorn þrettán ára í dag

Í dag á Skessuhorn 13 ára afmæli. Þann 18. febrúar 1998 kom fyrsta tölublaðið út og hefur síðan verið í vikulegri útgáfu. Þrátt fyrir að þrettán ár sé ekki langur tími í veraldarsögunni, hefur ýmislegt breyst á ekki lengri tíma. Sjálft blaðið var þó að útliti og umgjörð býsna líkt því sem það er enn, þótt síðunum hafi fjölgað til muna. Fyrsta blaðið var 12 síður, en nú eru þær að jafnaði 32 á viku. Fréttalega var mjög áþekkur blær á blaðinu enda áherslur svipaðar og markmið með útgáfunni þau sömu. Mannlífstengt efni, málefni sveitarfélaga á Vesturlandi og verkefni þeirra, samgöngur, íþróttir og margt fleira var til umfjöllunar.  Margt var að breytast á Vesturlandi, þá var t.d. stutt í að Hvalfjarðargöng yrðu opnuð og Norðurál tæki til starfa á Grundartanga.

Í upphafi voru starfsmenn blaðsins fimm, þar af þrír í hlutastarfi; Gísli Einarsson var ritstjóri og blaðamaður, Magnús Valsson seldi auglýsingar, Magnús Magnússon sá um rekstur, lítilsháttar skrif og prófarkalestur, Unnur Ágústsdóttir braut um blaðið og Unnur Árnadóttir las síðupróförk.   Í dag eru sjö starfsmenn í fullu starfi á Skessuhorni auk freelance blaðamanna, ljósmyndara, umbrotsmanna, blaðburðabarna, ræstitæknis og fleiri. Þá er gaman að geta þess að nú á afmælisdeginum hafa lesendur Skessuhorns aldrei verið fleiri, efnahags- og bankahrun hefur ekki haft áhrif á kaup almennings á blaðinu og lestri þess og stjórnendur vita að blaðið er það sem mest er lesið af miðlum á Vesturlandi og því hvergi betri vettvangur til auglýsinga. Starfsfólk og útgefendur horfa því björtum augum til framtíðar.

 

Horft um öxl

Í tilefni dagsins rifjum við upp að gamni efni fyrsta tölublaðsins:

 

Á forsíðu fyrsta blaðs var greint frá að skíðalyfta hafi verið opnuð á Snæfellsjökli, Sementsverksmiðjan hefði tekið upp alþjóðlegt gæðakerfi og að hinn sjaldséði fiskur mjónefur væri til sýnis í Bjarnarhöfn.

 

Þá er m.a. sagt frá því að atvinnuleysi í desember 1997 hafi verið 2,2% á Vesturlandi og hafi dregist saman um heil 41% frá árinu áður. Þá er greint frá því að umhverfisráðuneytið staðfesti úrskurð um starfsleyfi fyrir sorpurðun í Fíflholtum fyrir allt Vesturland. Höfði, dvalarheimili aldraðra á Akranesi, var 20 ára, Loftorka í Borgarnesi var kjörið fyrirtæki ársins í Borgarbyggð og Akraneslistinn var stofnaður, en það var samstarfs A-flokkanna á Akranesi og Kvennalista í bæjarmálum. Þá voru viðtöl við þáverandi þingmenn Vesturlandskjördæmis, þau Sturlu Böðvarsson, Guðjón Guðmundsson, Ingibjörgu Pálmadóttur, Magnús Stefánsson og Gísla S Einarsson.

 

Í Dalasýslu voru hræringar í skólamálum og greint frá því að ráðgafarfyrirtæki legði til að skólahald yrði aflagt á Laugum í Sælingsdal til að ná fram hagræðingu í rekstri sveitarfélaganna. Þá var sagt frá því að hitaveita frá Reykjadal væri talinn vænlegur kostur fyrir Búðardal. Í fyrsta tölublaðinu var skrifað um að einangrun Reykjavíkur yrði brátt rofin og vísað til þess að á þessum tímapunkti var einungis hálft ár í að Hvalfjarðargöngin yrðu opnuð fyrir umferð. “Hvernig getum við nýtt okkur þann flaum forvitinna höfuðborgarbúa sem vilja skoða Vesturland í framtíðinni,” spurði Björn S Lárusson þáverandi markaðsfulltrúi m.a. í pennagrein sem hann skrifaði.

 

Greint var frá því að til stæði að ljúka við lagningu hitaveitu í Stykkishólm á árinu og samhliða því var verið að byggja sundlaugar við íþróttahús bæjarins. Greint var frá kosningu um sameiningu sveitarfélaga í Borgarfirði en í janúar þetta ár var samþykkt sameining Andakílshrepps, Reykholtsdalshrepps, Hálsahrepps og Lundarreykjadalshrepps. Íbúar Hvítársíðu og Skorradals felldu þá sameiningu. Þá var í febrúar þetta ár samþykkt sameining fjögurra sveitarfélaga í Mýrasýslu, þ.e. Álftaneshrepps, Borgarbyggðar, Borgarhrepps og Þverárhlíðar.

 

Að lokum er hér moli úr heygarðshorni þessa tíma, en þá ku forseti Bandaríkjanna hafa verið fulllaus í rásinni:

Allir fjölmiðlar sem eitthvað kveður að hafa að undanförnu beint kastljósi sínu nánast óskiptu að kynlífi Clintons oddvita Bandaríkjahrepps. Skessuhorn getur því ekki látið sitt eftir liggja: Bill Clinton fékk bréf frá manni sem hótaði að limlesta hann ef han léti ekki konu þess síðarnefnda í friði. Clinton ræddi við ráðgjafa sinn og spurði hvað hann ætti að taka til bragðs. “Hafðu samband við manninn og lofaðu honum því að hitta konuna hans ekki framar,” sagði ráðgjafinn. “En hann sagði ekki til nafns,” svaraði Clinton.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is