Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
23. febrúar. 2011 01:01

Ókeypis hvalaskoðun í Grundarfirði

Firðirnir á norðanverðu Snæfellsnesi iða hreinlega af lífi. Þar hefur allt verið fullt af fiskum, hvölum og fuglum undanfarnar vikur. Talið er að þetta fjöruga lífríki stafi aðallega af ógurlegu magni vorgotssíldar sem hreiðrað hefur um sig í Breiðafirði eins og síðastliðin ár. Í Grundarfirði og Kolgrafarfirði hafa háhyrningarnir verið mest áberandi en einnig hefur sést til höfrunga, hrefnu og hnísu. Mikið fuglalíf hefur einnig verið á svæðinu; mávar, fýlar og súla í þúsundatali ásamt öðrum sjófuglum og þá hefur stór hópur af haförnum sést á sveimi í Kolgrafarfirði. Þá er loðnan að ganga norður fyrir Snæfellsnes og mikið hefur veiðst af þorski í Breiðafirði að undanförnu. Því er ljóst að firðirnir eru drekkhlaðið veisluborð um þessar mundir.

 

 

 

 

 

Úlfar hafsins

Háhyrningarnir í Grundarfirði hafa boðið gestum og gangandi upp á ókeypis hvalaskoðun enda elta þeir síldina nánast upp í fjöru. Tómas Freyr Kristjánsson ljósmyndari Skessuhorns hefur, ásamt fleirum heimamönnum, myndað dýrin í gríð og erg en fjöldi fólks hefur gert sér ferð til Grundarfjarðar til að berja augum þetta stórkostlega sjónarspil náttúrunnar. “Síðastliðinn sunnudag taldi ég á tímabili á milli 30 og 40 ugga sem voru upp úr sjónum í einu. Þeir syntu makindalega og hámuðu í sig síld áhorfendum til mikillar gleði. Mikið af fólki gerði sér þá leið niður á Grundarkamb til að verða vitni að þessum merkilega atburði,” sagði Tómas en hann sagði einnig marga báta vera farna að sigla um fjörðinn með fólk í hvalaskoðun.

Starfsfólk Náttúrustofu Vesturlands leit einnig til hvala í liðinni viku og á vef þeirra stendur að sjómenn á svæðinu telji að undanfarna daga hafi verið hundruð hvala í firðinum. Þar segir einnig að háhyrningar séu stundum kallaðir úlfar hafsins. Þeir eru öflug rándýr sem fara víða og veiða gjarnan í fjölskylduhópum.

 

Erfitt að markaðssetja villta náttúru

Gísli Ólafsson hótelstjóri á Hótel Framnesi og ferðaþjónustuaðili í Grundarfirði segir erfitt að markaðssetja villta náttúru, hún sé svo óútreiknanleg. Hvalirnir hafi þó sést vel út um gluggana á hótelherbergjunum. “Ég reyndi að selja ferðamönnum þessa paradís, hafði meðal annars samband við ferðaþjónustuaðila fyrir sunnan, en flestir erlendir ferðamenn eru búnir að skipuleggja Íslandsförina með miklum fyrirvara og gera sér ekki ferð hingað í von um að sjá kannski hvali. Þetta var eins með fyrra eldgosið á síðasta ári, það tók fjóra daga að markaðssetja náttúruna og í fyrstu fóru aðeins Íslendingar að sjá það. Auðveldast er að selja Íslendingum þessa náttúruviðburði, enda voru Hólmararnir fyrstir á svæðið.”

Gísli segir útlendingana sem þegar voru mættir á svæðið hafa notið góðs af og sagði blaðamanni frá pari sem höfðu verið hæstánægt eftir dvöl sína í Grundarfirði, sáu hvali yfir daginn og norðurljós um kvöldið. Hann hefur þó ekki gefið upp alla von varðandi markaðssetninguna: “Nú er myndefnið til og það er hægt að nota til markaðssetningar fyrir næsta ár. Við látum ferðamenn vita að á þessum tíma hafi háhyrningarnir elt síldina inn fjörðinn og komi síldin aftur, sem verður að teljast líklegt, eru líkur á að hvalirnir elti,” sagði Gísli bjartsýnn að lokum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is