Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Miðaftann. Fjórði Óðinsdagur í Haustmánuði
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
28. mars. 2011 09:01

Í myrkrinu bak við tunglið - leikrýni

Það er stundum svo þægilegt og gott að fara í leikhús. Ganga inn í salinn, setjast og gleyma sér í dágóða stund yfir notalegri sögu með góðum endi.  Leikverk leiklistarklúbbs nemendafélags Menntaskóla Borgarfjarðar – er ekki þannig. Verkið Mannsins myrka hlið sem frumsýnt var s.l. föstudag skilur áhorfandann eftir rækilega vakinn og dálítið klóraðan, með höfuðið fullt af efa. Maður lítur í eigin barm og ekki síst á íslensku þjóðina, en líka á manninn yfirleitt. Það kemur upp í hugann lína úr kvæði frá 19. öld:  Höfum við gengið til góðs?  Á nútímamáli:  Erum við ekki að klikka á einhverju hérna?

 

 

 

Leikhópurinn er hins vegar ekki að klikka á neinu og vinnur afrek.  Krakkarnir hafa ákveðið að velja og vinna frá upphafi af metnaði.  Þau fengu Bjart Guðmundsson, ungan leikstjóra, í lið með sér og sömdu svo verkið með honum. Nútímalegra getur það varla verið enda leitar verkið djúpt í samtímann og spyr áleitinna spurninga um tilveruna.  Leikritið byggir á tónlist Pink Floyd, þ.e. breiðskífunni Dark side of the moon, sem á sínum tíma (1973) gerði miklar kröfur til hlustandans með gagnrýnum textum og sterkum efasemdum um margt sem viðgekkst í samfélagi þess tíma. Í verkinu sem hér um ræðir eru textar hljómsveitarinnar allir íslenskaðir og fá aðstandendur sýningarinnar sérstakt hrós fyrir það. Tónlistin skipar mikinn sess í verkinu og færir það í sífellu aftur að hugverki Pink Floyd sem svo mikla athygli vakti á sínum tíma. Annað er hins vegar frumsamið og ekki síst tekið úr okkar samtíma. Við fylgjumst með ungu fólki, lífi þeirra á Facebook, valdi markaðsaflanna, tölvuleikjunum og nekt mannsins í köldu samfélagi. Stríðið er einnig tekið fyrir - hvernig fólk verður viljalaust verkfæri þess sem stjórnar. Hverjum er hampað og hvers vegna?  Guðfræðin er tekin fyrir og þjóðkirkjan sleppur ekki.  Foreldrar eru uppteknir af eigin þörfum og hlusta ekki á börn sín. Fordómarnir og heimskan liggja svo hjá okkur sjálfum, það er meinið. Árveknina vantar, það er skortur á sjálfstæðri hugsun og skynsemi.

 

Verk Pink Floyd var á sínum tíma samið í skugga erfiðs tímabils þar sem  hljómsveitarmeðlimir höfðu fylgst með félaga sínum Syd Barrett falla fyrir eiturlyfjum, breytast og missa loks tengslin við raunveruleikann. Það var styrkleiki texta og tónlistar að menn túlkuðu eigin reynslu og þar var Roger Waters meginhöfundur textans. Þetta var árið 1973. Tæpum fjörutíu árum síðar er enn margt að segja, það sýnir uppfærsla menntskælinga í Borgarnesi á Mannsins myrku hlið.

 

Leikstjóri og leikhópur eru öll vel vakandi og öflugir túlkendur hins firrta nútíma. Ennþá er maðurinn í tilgangslausu stríði, ennþá berst hann við fíkn og ennþá er hann fórnarlamb þeirra sem stjórna með klækjum og ofbeldi. Og spurningarnar liggja í loftinu þegar áhorfandinn gengur úr salnum.

Mannsins myrka hlið er ekki „þægileg“ sýning.  En hún er virkilega góð.

 

Næstu sýningar verða fimmtudaginn 31. mars kl. 20.00, 2. apríl kl. 22.00 (power sýning) og 4. apríl kl. 19.00. Miðapantanir: 691 8981 eða 848 8668.

 

Guðrún Jónsdóttir

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is