04. apríl. 2011 07:01
Tveir piltar fengu nýlega dóm fyrir nytjastuld og umferðalagabrot hjá Héraðsdómi Vesturlands. Piltarnir tóku á síðkvöldi um mitt sumar 2010 lögreglubíl af stærri gerðinni ófrjálsri hendi og óku honum um ýmsar götur á Akranesi áður en þeir voru stöðvaðir af lögreglu. Fyrir þetta brot, sem fellur undir nytjastuld, voru báðir piltarnir dæmdir í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og hvor um sig til greiðslu um hundrað þúsund króna í málsvarnarlaun. Þeim sem ók bílnum var jafnframt gert að greiða 160.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 12 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Auk þess var hann sviptur ökuréttindum í 20 mánuði frá 11. júlí á komandi sumri.