11. apríl. 2011 09:01
Stóru sveitarfélögin þrjú á Snæfellsnesi; Grundarfjarðarbær, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær, auk Dalabyggðar, eru grænjaxlar, en svo kallast þátttakendur í verkefninu Grænn apríl. Á heimasíðu Græns apríl segir að um sé að ræða verkefni sem hópur áhugafólks um umhverfismál hrinti í framkvæmd. Í hópnum er meðal annarra Guðrún Bergmann, frumkvöðull í umhverfisvernd á Snæfellsnesi. Markmið Græns apríls er að fá ríkisstjórn, sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga til að kynna grænar og umhverfisvænar vörur, þekkingu og þjónustu og styðja við sjálfbæra framtíð á Íslandi. „Með sameinuðu átaki er ætlunin að gera umhverfisumræðuna skemmtilega, líflega og kúl fyrir alla Íslendinga.“