12. apríl. 2011 05:00
Einar Örn Finnsson tekur nú þátt í frumkvöðlasmiðju hjá G. Ágústi Péturssyni. „Ég er að vinna að tveimur verkefnum. Annars vegar að undirbúa skrif á viðtalsbók við klassíska íslenska söngvara og hins vegar að búa til námskeið um óperusöngvara. Ég hef stundað nám í klassískum söng, fyrst í Söngskóla Reykjavíkur og síðan í Berlín í tvö og hálft ár, og hef því stúderað söngtækni í mörg ár,“ segir Einar Örn. Sem hluta af sínu verkefni í frumkvöðlasmiðjunni hefur Einar Örn gert skoðanakönnun til að kanna viðbrögð við bókinni, sem hann óskar eftir að lesendur Skessuhornsvefjarins taki þátt í. Svörun spurninganna tekur örstutta stund. Sjá slóð hér að neðan:
http://www.esurveyspro.com/Survey.aspx?id=15dbd94e-e83c-435e-b52c-0a67b68c534a
Markmið bókarinnar eru:
Að skjalfesta upplifun og tilfinningu íslenskra klassískra söngvara fyrir eigin söngtækni.
Hvar voru þeir staddir tæknilega þegar þeir hófu söngnám og hvaða erfiðleika þurftu þeir að yfirstíga til þess að komast þangað sem þeir komust?
Hvernig líta þeir á öndun, opnun, háls, barka, tungu, kjálka o.s.fr?
Hvað telja þeir nauðsynlegt tæknilega til þess að röddin endist heila óperu og heilan starfsaldur?
Hvernig fór viðkomandi að því að láta rödd sína berast yfir stóra hljómsveit?
Hvaða mistök gerðu þeir og lentu þeir einhvertíma í vandræðum með tæknina?
Hvað gerðu þeir til að leysa úr þeim?
Áætlað er að nota hágæða stafrænt upptökutæki til að taka viðtölin með það að markmiði að ef söngvarinn syngur til að útskýra mál sitt þá sé hægt að láta þá upptöku fylgja bókinni.
Upptakan getur einnig komið sér vel ef bókin verður markaðssett og seld á stafrænu formi.
Þessi bók er ætluð öllum þeim sem áhuga hafa á söng.