11. apríl. 2011 12:06
Skagamanninum Helga Daníelssyni er ýmislegt til lista lagt. Hann er fyrrum yfirlögregluþjónn og fótboltakappi en hefur í gegnum tíðina horft reglulega í gegnum linsuauga myndavélarinnar og fest á filmu ýmislegt í samtímanum. Þegar Akraborgin lagði upp í sína síðustu áætlunarferð á Akranes fylgdu Helgi og sonur hans Friðþjófur henni eftir með myndavélunum sínum. Á ljósmyndasýningu sem nú er komin á veggi í Bókasafni Akraness gefur að líta kveðjuferð „Boggunnar,“ frá hafnarbakka Reykjavíkur og á Akranes, fólkið um borð og kveðjuathöfnina. Helgi segist aðspurður hafa fengið þennan vegg bókasafnsins á Akranesi að láni og geti vel farið svo að hann muni setja fleiri ljósmyndasýningar upp þegar þessi um síðustu ferð Boggunnar verður tekin niður.
Nánar verður greint frá sýningunni ásamt myndum úr síðustu ferð Akraborgarinnar, í næsta blaði Skessuhorns.