15. apríl. 2011 03:13
Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar í gær lagði Geirlaug Jóhannsdóttir annar fulltrúa Samfylkingar í sveitarstjórn fram tillögu um að sveitarstjórn Borgarbyggðar skori á meðeigendur í OR að endurmeta val á stjórnarmönnum með tilliti til aukinna hæfniskrafna sem nú á tímum eru gerðar til stjórnarmanna í fyrirtækjum. Björn Bjarki Þorsteinsson formaður byggðarráð, og áheyrnarfulltrúi í stjórn OR, lagði til að tillögunni yrði vísað til byggðarráðs og var það samþykkt. "Eigendanefnd er nú að vinna drög að eigendastefnu fyrir fyrirtækið og þar er einmitt verið að fjalla um hvernig skipa á í stjórn fyrirtækisins. Eigendastefna mun síðan koma til umsagnar byggðarráðs, bæjarráðs og borgarstjórnar. Í því ljósi taldi ég eðlilegt að tillögu Geirlaugar yrði vísað til umfjöllunar byggðarráðs Borgarbyggðar," sagði Björn Bjarki í samtali við Skessuhorn.
Geirlaug sagðist í samtali við Skessuhorn telja að ein af ástæðunum fyrir slæmri stöðu Orkuveitu Reykjavíkur og óheillaþróunar í stjórnun fyrirtækisins um tíðina, sé að stjórnarmenn hafi verið pólitískt skipaðir í stjórn fyrirtækis en ekki valdir á faglegum forsendum. “Enda sést á fundargerðum stjórnar OR að það hefur verið bullandi pólitík inni í stjórninni og ákvarðanir ekki alltaf teknar með hagsmuni fyrirtækisins í huga heldur frekar á pólitískum forsendum. Má þar sem dæmi nefna arðgreiðslur til eigenda upp á 1,5 milljarð árið 2008 þegar fyrirtækið var rekið með 70 milljarða kr. tapi. Að sama skapi hefur hagsmuna eigenda ekki verið gætt, einkum minni eigenda í fyrirtækinu. Síðan þegar í harðbakkann slær eiga minni eigendurnir líka að taka á sig ábyrgðina, sem þeir eru ekki eins í stakk búnir að gera og langstærsti eigandinn, Reykjavíkurborg sem ráðið hefur ferðinni. Nú eftir hrunið er almennt farið að gera auknar hæfniskröfur til stjórnarmanna í fyrirtækjum. Á þeim forsendum finnst mér að eigi að endurmeta val á stjórnarmönnum í Orkuveitu Reykjavíkur,” segir Geirlaug Jóhannsdóttir.