24. apríl. 2011 12:36
Opnaður var sveitamarkaður á Hraunsnefi í Norðurárdal á sumardaginn fyrsta og er hann opinn nú um páskana sem og áfram í sumar. Að markaðinum standa konur úr héraðinu sem í vetur hafa hist annan hvern miðvikudag með hannyrðir sínar. Sú hugmynd kom upp að setja á stofn sveitamarkað með þeim vörum sem þær hafa verið að búa til. Úrvalið og fjölbreytnin kom meira að segja konunum sjálfum á óvart þegar allt var komið á sinn stað. Þarna má finna alls konar prjónavarning, svo sem peysur, vettlinga, sokka, sjöl, prjónaða og þæfða skó og fleira. Einnig silfursmíði, vörur úr roði, saumaðar veggmyndir, pottaleppa með dýramyndum, heklaða barnasmekki og margt fleira fyrir börnin. Það mátti líka fá sér hænu- og andaregg, brodd og fleiri landbúnaðarvörur til sölu. Loks eru páskaungar á staðnum til að gleðja börnin.