24. apríl. 2011 01:24
Félag íslenskra bifreiðaeigenda lýsir þungum áhyggjum yfir andvaraleysi stjórnvalda gagnvart verðhækkunum á bifreiðaeldsneyti. Í tilkynningu sem félagið sendi nýverið frá sér segir að eldsneytisverð íþyngi ekki aðeins fjárhag heimilanna heldur stefni í verulegan samdrátt í viðskiptum og þjónustu um allt land vegna minnkandi umferðar. Þá ítrekar FÍB því áskorun sína til stjórnvalda frá 28. febrúar sl., um að lækka álögur hins opinbera á bifreiðaeldsneyti og leggur til við stjórnvöld að skattar á eldsneyti verði lækkaðir um 20 kr.
Umferðin í mars sl. dróst saman um 15,5% samanborið við mars í fyrra. Vegagerðin spáir verulegum samdrætti út árið ef þessi þróun í eldsneytisverði og álögum heldur áfram. Samdrátturinn er mestur á landsbyggðinni, sem hefur afar neikvæð áhrif á verslun og þjónustu, ekki síst ferðaþjónustuna. „Það geta varla talist hagsmunir ríkissjóðs að lama atvinnulíf á landsbyggðinni með óbreyttri skattlagningu. FÍB bendir á að ríkissjóður tekur til sín um 115 kr. af hverjum bensínlítra og hafa skatttekjurnar hækkað um 52% frá miðju ári 2008. Samgöngur eru sú lífæð þjóðfélagsins sem hefur mest að segja um hagsæld og félagslegt samneyti. Allt mælir með lækkun þessara skatta. Hátt eldsneytisverð eykur rekstrarkostnað fyrirtækja, sem hækkar flutningskostnað, sem hækkar vöruverð, sem hækkar verðbólgu, sem hækkar skuldir heimilanna – og minnkar ráðstöfunartekjur,“ segir að endingu í áskorun FÍB til stjórnvalda.