27. apríl. 2011 03:30
Undirbúningur Skagamanna fyrir komandi tímabil í fótboltanum hefur gengið vonum framar. Liðið lenti í 2. sæti í sínum riðli í Lengjubikarnum, á eftir KR-ingum, með lið eins og Keflavík, Þór og Íslandsmeistara Breiðabliks fyrir neðan sig. “Undirbúningstímabilið hefur gengið mjög vel. Við spiluðum marga leiki, fengum yfirleitt góð úrslit og fá mörk á okkur. Það er töluvert lítið um meiðsli hjá okkur og hópurinn er í góðu líkamlegu og andlegu formi,” sagði Þórður Guðjónsson framkvæmdastjóri ÍA í samtali við Skessuhorn. Fyrsti leikur Skagamanna verður útileikur gegn Selfossi í VISA bikarnum en Selfoss féll úr úrvalsdeild síðasta sumar. Fyrsti leikurinn í 1. deildinni er síðan gegn HK á Kópavogsvelli föstudaginn 13. maí.
Spjallað er við Þórð Guðjónsson framkvæmdastjóri ÍA um komandi leiktíð í Skessuhorni vikunnar sem kom út í dag.