27. apríl. 2011 01:52
Eimskipafélagið og Kiwaninshreyfingin gefa öllum grunnskólabörnum sem ljúka 1. bekk grunnskóla í vor reiðhjólahjálma. Verkefni þetta er árviss viðburður félaganna til að stuðla að umferðaröryggi yngstu hjólreiðarmanna landsins, en þetta er í áttunda skipti sem félögin standa fyrir hjálmagjöfum. Í ár hefur verkefnið hlotið nafnið „Óskabörn þjóðarinnar“, en samtals munu um 4.300 börn fá reiðhjólahjálma að gjöf í þetta skipti. Í dag, 27. apríl verður verkefninu ýtt úr vör á athafnasvæði Eimskips við Sundahöfn í Reykjavík. Þá munu 1. bekkingar úr nokkrum skólum af höfuðborgarsvæðinu mæta og veita fyrstu hjálmunum viðtöku. Á næstu dögum og vikum mun Kiwaninshreyfingin fara í alla grunnskóla landsins og afhenda börnum 1. bekks grunnskóla hjálma. Foreldrar og forráðamenn eru beðnir um að vera vakandi fyrir því þegar börn þeirra koma heim með hjálma og aðstoða þau við að stilla þá rétt.