02. maí. 2011 08:50
Nótaskipið Jóna Eðvalds frá Hornafirði var á ferðinni í Grundarfirði síðastliðinn föstudag. Tilgangurinn var að athuga hversu mikið magn af síld væri í firðinum og hversu útbreidd sýkingin í henni væri. Í ljós kom að síldin er nánast horfin, bæði úr Grundarfirði og Kolgrafarfirði, og því verða engar vorveiðar á síld eins og jafnvel stóð til. Líkt og lesendur Skessuhorns muna hafa firðirnir á norðanverðu Snæfellsnesi verið fullir af síld í vetur sem síðan laðaði að sér annað dýralíf, þar á meðal háhyrninga. Hafrannsóknastofnun kannaði ástand síldarstofnsins í febrúar síðastliðnum þar sem í ljós kom að hlutfall sýktrar síldar hafði ekki breyst mikið milli ára. Að jafnaði voru um 40% síldarinnar sýkt í Breiðafirði, en þess má geta að 80% síldarinnar sem veiddist í Grundarfirði var sýkt. Nú er síldin hins vegar farin úr Grundarfirði og kemur að líkum ekki aftur fyrr en næsta vetur.