04. maí. 2011 01:01
Sauðburður er nú hafinn hjá flestum sauðfjárbændum landsins. Þessi tími hefur jafnan þótt einn skemmtilegasti tíminn í sveitinni og sannkallaður vorboði. En þetta er erfið vinna og verkin sem bændur vinna í sauðburði hafa lítið breyst í gegnum tíðina. Vaka þarf yfir kindunum allan sólarhringinn og bóndinn bregður sér í ljósmóðurhlutverkið þegar þannig ber undir. Skessuhorn kíkti í heimsókn að Brekku í Norðurárdal í síðustu viku. Bærinn er í alfaraleið, með þjóðveg eitt í gegnum jörðina og háskólaþorpið á Bifröst í bakgarðinum, og þar taka á móti okkur hjónin Þórhildur Þorsteinsdóttir og Elvar Ólason. „Heimilisverkin fá að sitja á hakanum á þessum tíma árs,“ segir Þórhildur á meðan hún hellir upp á kaffi í eldhúsinu að Brekku og blaðamaður sest niður við eldhúsborðið. “Það kemur tími fyrir þau seinna. Rykið fer ekkert í millitíðinni,” segir hún og við komum okkur vel fyrir.
Í Skessuhorni vikunnar er rætt við bændurna Þórhildi og Elvar á Brekku í upphafi sauðburðar.