05. maí. 2011 09:01
Vikið hefur verið frá hugmyndum um sameiningu lögregluembætta á Vesturlandi og Vestfjörðum, en þess í stað verða embættin á Vesturlandi eingöngu sameinuð. Fundarmenn á aðalfundi Lögreglufélags Vesturlands, sem haldinn var í Stykkishólmi þann 19. apríl síðastliðinn, fagna þessari niðurstöðu. Í nýjum drögum Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra í frumvarpi til laga um breytingar á lögreglulögum er hins vegar hvergi að finna eftirlaunapakkann sem hann hafði lofað lögreglumönnum. Í ályktun Lögreglufélags Vesturlands er lýst yfir áhyggjum af þessu. Þar segir að innanríkisráðherra hafi, á fundi með lögreglustjórum og lögreglumönnum á Vesturlandi í Borgarnesi í febrúar sl., sagt að frumvarp um fækkun og stækkun lögregluembætta yrði ekki lagt fram nema með þeim eftirlaunapakka sem lögreglumönnum hafi verið lofað.
Félagsmenn hafa einnig áhyggjur af þeirri auknu hagræðingarkröfu sem boðuð er í frumvarpinu og að sú hagræðing muni bitna á fjölda lögreglumanna, launum þeirra og starfsframa. Telja þeir að ekki megi rústa þeim launa- og starfsstigaþrepum sem lögreglumenn hafa áunnið sér, í nafni hagræðingar.
Lögreglufélag Vesturlands hvetur samninganefnd ríkisins til að nálgast kjarasamninga lögreglumanna á faglegan hátt og meta mikilvægi lögreglumanna í samfélaginu að verðleikum. Einnig hvetur það Ögmund Jónasson innanríkisráðherra til að auka fjárveitingar til lögreglu þar sem búast má við metfjölda ferðamanna á Íslandi í sumar.