09. maí. 2011 11:01
Bifhjólafjélagið Raftarnir hélt sína árlegu mótorhjólasýningu sl. laugardag í og við Hjálmaklett, hús Menntaskóla Borgarfjarðar. Tókst sýningin að sögn forsvarsmanna hennar í alla staði mjög vel; fjölmenni mætti og óhætt að segja að veðurguðirnir hafi verið þeim sérlega hliðhollir. Áætlað er að um 2000 gestir hafi sótt sýninguna að þessu sinni og mótorfákarnir hlupu á hundruðum. Af nægu var að taka utan dyra sem innan, þar sem eins og áður var kaffisala. Nokkur umboð og verslanir sýndu og seldu varning tengdan mótorhjólum og sitthvað annað skemmtilegt var á döfinni eins og drengurinn sem svo fimlega lék listir sínar á torfæruhjóli. Einnig voru nokkrir fornbílar í nýstofnuðum fornbílaklúbbi til sýnis utandyra.
Sjá myndasíðu í Skessuhorni næsta miðvikudag.