10. maí. 2011 08:01
Dagana 10. -14. maí mun Kiwanishreyfingin hér á landi selja K-lykilinn, Lykil að lífi. Þetta er í þrettánda skipti sem átak af þessu tagi stendur yfir af hálfu Kiwanis. Lykillinn er til styrktar fólki sem glímir við geðraskanir, en það er algengur sjúkdómur sem líklega veldur meira vinnutapi og kostnaði fyrir samfélagið en flestir aðrir sjúkdómar, eins og segir í tilkynningu frá hreyfingunni. „Með því að kaupa K-lykilinn, Lykil að lífi, styrkir þú gott málefni og færir einstaklingum með geðraskanir nýja von. Allt fé sem safnast fer beint til starfsendurhæfingar einstaklinga með geðraskanir og hjálpar þeim til þátttöku í daglegu lífi á nýjan leik.
Að þessu sinni rennur ágóðinn af sölu K-lykilsins til eftirfarandi verkefna: Til BUGL, sérverkefna sem snúa að þjónustu við ungt fólk m.a. á landsbyggðinni. Í öðru lagi til miðstöðvar foreldra og barna (MFB) sem skiptist í þrennt; foreldraeflingu, meðgönguhópa og tengslaeflingu. Miðstöðin er m.a með sérhæfð úrræði við fæðingarþunglyndi. Loks mun Lautin á Akureyri, sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir njóta góðs af því fé sem safnast.“
Öll hreyfing stuðlar að aukinni vellíðan og betri heilsu. Í tengslum við K-daginn standa Kiwanis og Sundsamband Ísland að sundátaki um allt land dagana 10.-14. maí.
Á meðfylgjandi mynd tekur forseti Íslands við fyrsta K lyklinum.