11. maí. 2011 10:14
Í dag klukkan 10:30 verður hleypt af stokkunum átakinu Áratugur aðgerða (Decade of Action) sem stofnað hefur verið til að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna. Hefst átakið í dag í öllum þátttökulöndum þess. Forgöngu um átakið hér á landi hafa innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið sem hafa kallað til samstarfs fjölmarga aðila sem sinna umferðaröryggismálum, þ.m.t. Umferðarstofu, Vegagerðina og ýmis samtök og félög. Markmið átaksins er að draga úr banaslysum og alvarlegum slysum í umferðinni á heimsvísu næstu 10 árin og er hvert og eitt aðildarland SÞ hvatt til að setja fram áætlun um aðgerðir í þeim efnum. Byggjast slíkar áætlanir á því sem þegar hefur verið gert í umferðaröryggisaðgerðum og nýjum verkefnum sem einstök ríki vilja leggja áherslu á.