12. maí. 2011 08:49
Mánudaginn 9. maí hélt kennslumálanefnd Háskóla Íslands fund með stjórnendum framhaldsskóla. Á fundinum voru meðal annars kynnt gögn um hve stór hluti nemenda sem innritast hefur í Háskóla Íslands hefur náð að ljúka námi. Af öllum þeim sem nýskráðir voru í Háskóla Íslands á árabilinu 1982 til 2000 hafa 45% útskrifast. Af nemendum úr Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi sem innrituðust á þessu árabili hafa 49% útskrifast og eru aðeins þrír skólar með hærra hlutfall. Þessir þrír skólar eru MA, MR og Verslunarskólinn með hlutföll á bilinu 52% til 55%.
Af öllum nemendum sem nýskráðir voru í HÍ á árunum 2001 til 2005 hafa 52% útskrifast. Af nemendum úr FVA sem innrituðust á þessu árabili hafa 65% útskrifast og er enginn skóli með hærra hlutfall. Úr tveimur öðrum framhaldsskólum hafa yfir 60% þeirra sem hófu nám við HÍ á þessu árabili útskrifast. Þessir skólar eru MA og MR.
Atli Harðarson aðstoðarskólameistari FVA segir að í gögnum kennslumálanefndar Háskóla Íslands komi fram að á haustmisseri 2010 voru 233 stúdentar frá FVA í grunnnámi við háskólann. Þeir skiptust þannig á svið að 59 voru á félagsvísindasviði, 38 á heilbrigðissviði, 46 á hugvísindasviði, 51 var á menntavísindasviði og 39 voru á verkfræði- og náttúruvísindasviði. Aðsókn stúdenta úr FVA að Háskóla íslands virðist í ríflegu meðallagi. Á skólaárinu 2008 til 2009 útskrifaði FVA t.d. um 1,8% allra stúdenta á landinu og frá honum eru um 2,4% allra nemenda við HÍ.