12. maí. 2011 12:36
Byggðastofnun hefur ákveðið að veita árlega viðurkenningu á ársfundi sínum og verður það gert í fyrsta sinn 25. maí nk. á fundi í Vestmannaeyjum. Henni hefur verið valið heitið „Landstólpinn - Samfélagsviðurkenning Byggðastofnunar“. „Það er von okkar að slíkur viðburður gefi jákvæða mynd af landsbyggðinni og af starfi stofnunarinnar. Viðurkenningin er hvatning og einskonar bjartsýnisverðlaun, því hugmynd að baki er að efla skapandi hugsun og bjartsýni,“ segir í tilkynningu frá Byggðastofnun. Viðurkenninguna má veita einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða sveitarfélagi. Það gæti t.d. verið eitthvert tiltekið verkefni eða starfsemi, umfjöllun eða annað og gæti bæði hafa vakið athygli á byggðamálum, landsbyggðinni í heild, eða einhverju tilteknu byggðarlagi og þannig aukið veg viðkomandi samfélags.
Viðurkenningin er auglýst í blöðum og á heimasíðu stofnunarinnar og hver sem er getur komið með ábendingu, sbr. val á manni/konu ársins. Dómnefnd velur síðan úr.
Hafa má í huga við ábendinguna hvort viðkomandi hafi:
- gefið jákvæða mynd af landsbyggðinni eða viðkomandi svæði
- aukið virkni íbúa eða fengið þá til beinnar þátttöku í verkefninu
- orðið til þess að fleiri verkefni/ný starfsemi verði til
- dregið að gesti með verkefni eða umfjöllun sinni
Ekki er nauðsynlegt að öllum þessum atriðum sé fylgt eftir, heldur séu þau höfð til hliðsjónar.