12. maí. 2011 01:19
Verkalýðsfélag Akraness og Norðurál áttu fund í gær vegna lausra kjarasamninga starfsmanna á Grundartanga. Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA segir engan árangur hafa náðst á fundinum, en getur þess þó í lok fréttar á vef VLFA að félagið hafi gert Norðuráli tilboð sem nú sé til skoðunar. Í frétt VLFA hefur Vilhjálmur eftir forstjóri Norðuráls að fyrirtækið væri tilbúið með sambærilegar launahækkanir og samið var um á hinum almenna vinnumarkaði fyrr í mánuðinum en þar var samið til þriggja ára og nam heildarkostnaðarhækkun 11,4% á tímabilinu. Því tilboði hafnaði VLFA og vísar til þess að engar forsendur séu fyrir því að fyrirtæki starfandi í útflutningi, sem hefur hagnast gríðarlega á gengisfalli íslensku krónunnar, skili ekki þeim ávinningi að einhverju leyti til sinna starfsmanna, segir Vilhjálmur Birgisson. Vísar hann í samninga milli félagsins og Elkem sem náðust í liðnum mánuði og segir að krafa VLFA verði um sambærilegar hækkanir til handa starfsmönnum Norðuráls. Segir Vilhjálmur svars að vænta eftir helgi um tilboð sem VLFA gerði forsvarsmönnum Norðuráls.