13. maí. 2011 11:12
Í kvöld hefst keppni á Íslandsmóti 1. deildar karla í knattspyrnu þegar fjórir leikir fara fram í fyrstu umferð. Skagamenn heimsækja HK-inga í Kópavoginn kl. 20 en þess má geta að stjórn Knattspyrnufélagsins ÍA hefur ákveðið að bjóða upp á rútuferð fyrir stuðningsmenn sína og er brottför kl. 18.45. Á knattspyrnuvefnum fotbolti.net má sjá þjálfara og fyrirliða 1. deildar spá um úrslit mótsins og þar eru Skagamenn á toppnum með 237 stig en Selfyssingum spá þeir öðru sætinu með 200 stig. Þá vekur athygli að vestlensku nýliðunum í deildinni, Víkingum Ólafsvík, er spáð góðu gengi, eða 6. sæti deildarinnar. Þeir leika sinn fyrsta leik gegn Haukum á morgun kl. 16 á Ólafsvíkurvelli.