16. maí. 2011 01:23
Skaginn hf á Akranesi, sem framleiðir búnað fyrir fisk- og matvælavinnslur, hefur undanfarna mánuði haft nóg af verkefnum. Stór verkefni eru í gangi vegna uppsjávarfisksvinnslu og verkefnastaða góð. Nú í maíbyrjun þegar Skaginn kynnti vörur sínar á sjávarútvegssýningu í Brussel var skrifað undir samning um sölu á lausfrysti til fyrirtækis í Litháen. Einar Brandsson markaðsstjóri hjá Skaganum segir að þessi samningur sé góð viðbót við þá þrjá frysta sem búið var að selja í apríl. Frá áramótum hefur Skaginn unnið að verkefnum fyrir þrjár uppsjávarvinnslur í landinu. Þetta eru HB Grandi á Vopnafirði, Síldarvinnslan í Neskaupstað og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum.
Á Vopnafirði er verið að endurbæta vinnslulínu, gamla plötufrysta og bætt er við búnaði til pökkunar á makríl. Í Eyjum er verið að endurbæta pökkunarlínu ásamt því að smíða einn sjálfvirkan plötufrysti. Hjá Síldarvinnslunni er bætt við frysti sem sérhannaður er til að frysta makríl í kartonkössum.
Einar segir að eingöngu hjá fyrirtækjum í uppsjárvarfiskvinnslu sé eitthvað að gerast í fjárfestingum, óvissan og óróinn varðandi fiskveiðistjórnunarkerfið skapi það að almennt haldi stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja að sér höndum, sem síðan bitni á fyrirtækjum sem þjónusti sjávarútveginn. Enn sjái ekki fyrir endann á þeim málum.
Nánar verður rætt við Einar Brandsson markaðsstjóra í Skessuhorni næsta miðvikudag.