16. maí. 2011 02:50
Síðastliðinn föstudag bættist nýtt fyrirtæki við í flóru annarra í Borgarnesi. Það nefnist Gallerí Gersemi og er listamuna- og handverksgallerí, staðsett í gamla bænum, gegnt Landsnámssetri Íslands. Það eru hjónin Þorkell Þorkelsson ljósmyndari og Heba Soffía Björnsdóttir sem eiga og reka galleríið. Þau segjast ætla að leggja sérstaka áherslu á að bjóða verk sem eru sköpuð, framleidd eða innblásin af Vesturlandi og eru gæði lykilatriði þegar verk eru valin til sýnis og sölu. Þorkell er ljósmyndari og hefur um langt skeið starfað sem slíkur, lengst af við fréttaljósmyndun en einnig erlendis og nú síðasta árið í Borgarnesi. Ekki sé því tilviljun að þær myndir sem eru til sýnis og sölu í gallerí Gersemi skuli vera ljósmyndir. Myndahöfundar eru bæði Þorkell sjálfur sem og aðrir félagar hans í greininni.
Heba Soffía og Þorkell fluttust í Borgarnesi fyrir rúmlega ári síðan en Heba er fædd og uppalin þar. Hún stýrði í um eitt ár Markaðsstofu Vesturlands en lét af því starfi eftir flutning Markaðsstofunnar á nýjum stað í vor. Þau hjón segjast ætla að starfa saman að þeirri tilraun sem opnun gallerís í Borgarnesi vissulega sé. Þau hafi trú á að markaður sé til staðar en tíminn einn skeri úr um hvort rekstur af þessu tagi gangi.