18. maí. 2011 08:01
Háskólinn á Bifröst stendur fyrir fræðsludagskrá fyrir aldurshópinn 60+ dagana 31. maí – 3. júní 2011. Áhersla verður lögð á fræðslu, skemmtun og útivist í einstöku umhverfi skólans í Borgarfirði. Auk fjölmargra fræðsluerinda verður farið í lautarferð í Paradísarlaut, kvöldgöngu í Jafnaskarðsskógi við Hreðavatn og skoðunarferð um Borgarfjörðinn þar sem m.a. Reykholt, Hvanneyri og Brúðuheimar í Borgarnesi verða heimsótt. Gunnar Þórðarson, tónskáld, heldur tónleika á Bifröst 1. júní og síðasta kvöldið mun dansinn duna í Hátíðarsal skólans við harmónikkuundirleik Þorvaldar Jónssonar í Brekkukoti.
Þetta er í annað sinn sem skólinn býður þessum aldurshópi upp á fjölbreytta dagskrá að vori. Í fyrra skiptið, árið 2009, var gerður afar góður rómur að framtakinu og sóttu fjölmargir þátttakendur af landinu öllu skólann heim. Á Björtum dögum munu færustu sérfræðingar fjalla um ýmis málefni líðandi stundar. Má þar nefna að Jón Ólafsson, forseti félagsvísindadeildar fjallar um andóf, ágreining og áróður í íslensku samfélagi, Ágúst Einarsson prófessor fjallar um menningu sem atvinnugrein, Eiríkur Bergmann Einarsson dósent fjallar um störf stjórnlagaráðs, Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri samtaka lífeyrissjóða, fjallar um lífeyrismál og Helga Mogensen, matgæðingur og jógakennari, fjallar um heilsusamlegt líferni og mataræði.
Mikil áhersla verður lögð á hreyfingu og útivist, s.s. morgungöngur, jóga og golfvöllur Glanni verður opinn. Þátttakendum stendur til boða að nýta alla þjónustu háskólans, m.a. bókasafn, líkamsræktaraðstöðu, pottasvæði, kaffihús og annað sem skólinn hefur upp á að bjóða. Innifalið í þátttökugjöldum er gisting í stúdíóíbúðum í uppábúnum rúmum og fullt fæði ásamt aðgangi að allri dagskrá og skoðunarferðum. Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér möguleika á styrkjum hjá fræðslusjóðum stéttarfélaganna.
Allar nánari upplýsingar um dagskrána og skráningu veitir Geirlaug Jóhannsdóttir í síma 433-3015 / 893-8960 og með tölvupósti geirlaug@bifrost.is.
-fréttatilkynning