18. maí. 2011 04:01
“Ég er svo mikill sveitamaður í mér að ég hef ekki viljað fara nær Reykjavík og kann alveg ljómandi vel við mig hérna á Akranesi, þótt það sé ágætt að vera í nálægð við borgina. Svo kemur varla það vor eða sumar að ég fari ekki vestur að hlaða batteríin. Það er sauðburðurinn og eyjalífið að vorinu og smalamennskan á haustin. Helst vil ég svo komast í heyskap að sumrinu. Mér finnst þetta fara mjög vel saman að búa hérna og geta skroppið vestur til að hitta mitt fólk og endurnýja kynnin við bernskustöðvarnar. Það er samt þannig að bóndinn blundar alltaf í mér og ég er ekki ennþá búinn að útiloka þann möguleika að fara í búskapinn, þótt hann verði æ fjarlægari,” segir Stefán Skafti Steinólfsson, sem búsettur hefur verið á Akranesi frá árinu 1997 en ólst upp og var búsettur vel fram á fullorðinsár í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd. Skafti hefur verið talsvert áberandi í starfinu hjá Ungmennafélaginu Skipaskaga á Akranesi síðustu árin, meðal annar í gegnum árangur dóttur sinnar Jófríðar Ísdísar í frjálsum íþróttum. Þá flutti Skafti hátíðarræðu á 1. maí sl. á Akranesi.
Í Skessuhorni vikunnar er spjallað við Stefán Skafta Steinólfsson um lífið í Dölum og á Skaganum.