19. maí. 2011 06:06
Fræg eru ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra fyrr á þessu kjörtímabili þegar hún sagði að álíka heilladrjúgt væri að tjónka við ódæla stjórnarþingmenn eins og að reyna að smala villiköttum. Allir vita hvernig þeim bardaga lauk. Hvað sem þessu líður reynir bæjarstjórn Grundarfjarðar svipað því hún hefur með auglýsingu á vef bæjarins boðað átak í handsömun óskráðra katta í Grundarfirði. „Hafið er átak á vegum bæjarins til að handsama óskráða ketti. Auglýst verður eftir eigendum óskráðra katta á heimasíðu sveitarfélagsins og verða þeir aðeins afhentir gegn greiðslu leyfisgjalds og áfallins kostnaðar við handsömun. Óskráðum köttum sem ekki er vitjað innan 5 daga verður lógað.“
Eftir stendur því spurningin um hvort einhver vilji gangast við að eiga villikettina í Grundarfirði eða fari fyrir þeim eins og óþægu köttunum sem nú eru tiltölulega munaðarlausir utan flokka á þingi.