22. maí. 2011 12:48
Gos hófst í Grímsvötnum í Vatnajökli í gærkvöldi. Svo virðist sem um sé að ræða eitt öflugasta sprengigos sem orðið hefur í eldstöðinni síðustu hundrað árin. Mikið öskufall er í næsta nágrenni eldstöðvarinnar víða á Suðurlandi og sér ekki handa skil. Að sögn vísindamanna eru þó vísbendingar um að nokkuð hafi dregið úr krafti gossins á síðustu klukkustundum. Fljótlega kom í ljós að þetta yrði ekkert minniháttar gos. Öskuhlaðinn gosmökkurinn steig hratt upp og náði upp í 17 kílómetra hæð strax í gosbyrjun en síðar í gærkvöldi og í nótt náði mökkurinn í um 20 kílómetra hæð. Ekkert eldfjall hér á landi gýs jafn oft og Grímsvötn en í eldstöðinni eru þrjár samliggjandi öskjur. Grímsvötnin sjálf eru í yngstu öskjunni. Áhrifa gossins gætir með margvíslegum hætti. Flugsamgöngur féllu strax niður innanlands og síðar millilandaflug, veginum um Skeiðarársand hefur verið lokað og björgunarsveitir aðstoða bændur og aðra á svæðinu eftir mætti.
Víða í sveitum á sunnanverðu landinu er lambfé komið út en lítið sem ekkert er hægt að gera til að hlú að því þar sem víða sést ekki handa skil, eins og áður segir. Byrjað er að senda aðstoð á svæðið víðar að og má geta þess að nú er brynvarinn bíll Björgunarfélags Akraness lagður af stað austur fyrir fjall, en bíllinn og áhöfn hans komu að góðum notum í gosinu í Eyjafjallajökli á síðasta ári.