25. maí. 2011 09:01
Skessuhorni barst beiðni um að leitað yrði upplýsinga um hvernig staðið hefði verið að ráðningu sumarstarfsmanna við sundlaugar í Borgarbyggð í vor. Ingunn Jóhannesdóttir forstöðumaður íþróttamannvirkja upplýsti í samtali við blaðamann að auglýst hafi verið í vor eftir fólki í sumarafleysingar, jafnvel þótt sveitarfélaginu bæri ekki skylda til þess samkvæmt nýrri starfsmannastefnu. Þá væri ekki heldur skylda að ræða við alla umsækjendur og hafi það ekki verið gert. Móðir sem ekki vildi una því að ekki var rætt við son hennar, sem sótti um eitt starfanna, taldi að óeðlilegt væri að ekki hafi verið rætt við alla umsækjendur. Ingunn upplýsti hins vegar að ráðinn hafi verið einstaklingur í starfið með gott orðspor og hafi viðkomandi getað byrjað störf strax, sem hentað hafi vel.