25. maí. 2011 04:01
Óhætt er að segja að nýjar áherslur ráði nú ríkjum á Fosshótel Reykholti í Borgarfirði. Þangað kom í vor hótelstjóri sem fékk það hlutverk í vegarnesi að innleiða nýjar áherslur í rekstrinum, er nokkurs konar breytingastjórnandi. Hún heitir Anna Sigurðardóttir og segist sjálf kjósa starfstitilinn yfirþerna. Hún er Hafnfirðingur að uppruna en hefur undanfarin ár stýrt breytingum á hótelum, meðal annars í Reykjavík og á Austurlandi, bæði fyrir Fosshótel og einyrkja í rekstri. Í Reykholti ætlar hún að vera til 1. september næstkomandi en þá á að vera lokið ákveðnu breytingarferli og nýtt fólk taki þá við stjórnun, helst heimafólk. Meðal breytinga segir hún vera að virkja heimafólk til starfa í auknum mæli, nýta hráefni úr heimabyggð til matargerðar og komið verði á ýmsum viðburðum með þátttöku heimafólks. Loks er markmið að efla samstarf við Snorrastofu og aðra ferðaþjónustuaðila í héraðinu.
Spjallað er við Önnu Sigurðardóttur yfirþernu á Fosshótel Reykholti í Skessuhorni vikunnar.