27. maí. 2011 03:02
Væntanlega verður morgundagurinn mjög viðburðaríkur hjá mörgum Skagamanninum en óvenju margir viðburðir verða þá í bænum. Umhverfishátíð verður haldin í fyrramálið og hefst hún á Jaðarsbökkum um tíu leytið og lýkur með grilli við Breiðina um hádegisbil. Upp úr hádeginu, eða klukkan 13:30, byrja síðan Norðurálsleikarnir í Akraneshöllinni og á svæðinu við Jaðarsbakka. Margt verður þar til skemmtunar fram eftir degi, ekki síst fyrir börnin. Síðdegis verður svo kóramót í Grundaskóla, þar sem fimm kórar eldri borgara syngja, þar á meðal Hljómum kór eldri borgara á Akranesi. Þá er ótalið fyrsta golfmótið í Eimskipsmótaröðinni á þessu vori sem fer fram á Garðavelli um helgina. Trúlega enda svo margir Akurnesingar sem og aðri Vestlendingar morgundaginn með því að grilla og fylgjast með útslitaleiknum í meistaradeildinni í fótbolta, enda spáir vel með veður um helgina.