30. maí. 2011 11:27
Það var frekar napurt í veðri þegar Grundarfjörður spilaði sinn fyrsta heimaleik á Grundarfjarðarvelli síðasta sunnudag. Björninn, sem er undirlið frá Fjölni, voru andstæðingarnir að þessu sinni.
Grundfirðingar byrjuðu undan vindi og það voru ekki liðnar nema 11 mínútur af leiknum þegar Predrag Milosavljevic átti aukaspyrnu sem markvörður Bjarnarins átti í mestu vandræðum með. Markvörðurinn missti boltann í stöngina sem rúllaði síðan eftir marklínunni þar sem að Ragnar Smári Guðmundsson kom aðvífandi og þrumaði boltanum í netið og kom heimamönnum í 1-0. Staðan var því 1-0 þegar dómarinn flautaði til leikhlés.
Í síðari hálfleik voru leikmenn Bjarnarins með vindinn í bakið og við það efldust þeir. Sterk vörn heimamanna átti þó ráð við öllum þeirra sóknaraðgerðum. Eftir eina snaggaralega skyndisókn á 73. mínútu átti Ari Bent Ómarsson góða rispu upp hægri vænginn og kom boltanum fyrir þar sem að Ólafur Hlynur Illugason lagði boltann fyrir sig og setti hann yfirvegað fram hjá markmanninum og staðan orðin 2-0 heimamönnum í vil. Við þetta var sem allur vindur væri úr Bjarnarmönnum og það voru því Grundfirðingar sem tóku stigin þrjú sem voru í boði að þessu sinni og þeir eru nú komnir með sex stig í riðlinum eftir tvo leiki. Það eru einu stigi meira en þeir fengu allt síðasta sumar. Næsti leikur Grundarfjarðar er gegn Ísbirninum á gervigrasinu við Kórinn í Kópavogi á morgun, fimmtudaginn 2. júní, kl 14.