31. maí. 2011 09:01
Vélhjólaklúbburinn Griðungar á Snæfellsnesi var stofnaður sunnudaginn 29. maí síðastliðinn. Í klúbbnum eru nú 29 stofnfélagar en alls sátu 14 manns stofnfundinn sem haldinn var í bakaríinu Nesbrauði í Stykkishólmi. Flestir félagsmenn koma frá Stykkishólmi og þá eru þrjár konur í klúbbnum. Allir 18 ára og eldri mega ganga í klúbbinn og það er ekki skylda að eiga hjól.
Á stofnfundinum var kosið bæði í stjórn og ferðanefnd. Gretar D. Pálsson var kjörinn formaður en hann var valinn með hlutkesti. Með honum í stjórn sitja Róbert W. Jörgensen, Kristján Auðunsson, Finnbogi Elíasson og Jón Þór Lúðvíksson. Félaginu er ætlað að sameina vélhjólaáhugamenn á Snæfellsnesi, stuðla að góðri hegðun í umferðinni en umfram allt að skemmta sér og öðrum.