Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
03. júní. 2011 01:01

Sjómannadagurinn víða haldinn hátíðlegur á Vesturlandi

Sjómannadagshelgin er framundan og verða hátíðarhöld víða um Vesturland í tilefni þess, bæði á morgun og sunnudag. Í grófum dráttum er dagskráin eftirfarandi:


 

Stykkishólmur

Í Stykkishólmi hefst dagskráin klukkan tíu þar sem lagðir verða blómsveigar við minnismerki sjómanna bæði í kirkjugarðinum og við höfnina. Síðan verður gengið til kirkju þar sem sérstök sjómannamessa verður og karlakórinn Kári tekur lagið. Við höfnina verða síðan skemmtilegir leikir eftir hádegi. Meðal þess sem verður í boði er koddaslagur, hindrunarhlaup, stakkasund, kappróður með skóflum, reiptog og margt fleira. Björgunarsveitin Berserkir verður með kaffisölu um borð í Baldri upp úr klukkan þrjú og dagskránni lýkur síðan klukkan fjögur með siglingu Baldurs sem verður í boði Sæferða.

 

 

 

 

Ólafsvík

Í Ólafsvík verður heljarinnar dagskrá alla helgina sem hefst í dag, föstudag, með dorgveiðikeppni á Norðurgarðinum fyrir öll börn í Snæfellsbæ. Í Átthagastofu verður hægt að skoða sýninguna „Hlutir með sögu og sál” auk þess sem fréttamöppur Kristjáns Helgasonar verða til sýnis. Þá verður markaðurinn Sjávarkistan opnaður í Sjávarsafninu en þar verður hægt að versla ýmis konar sjávarfang. Á laugardaginn verða ýmsir leikir við höfnina, t.d. kappróður, boðhlaup og reiptog og unglingadeildin Breki verður með andlitsmálningu. Um kvöldið verður síðan mikið um að vera í félagsheimilinu Klifi en þar fer fram sjómannahóf og dansleikur. Veislustjóri verður Brynja Valdís Gísladóttir og Hvannadalsbræður leika fyrir dansi. Borðhald hefst klukkan átta og Gilið sér um matinn. Á sunnudaginn, sjálfan sjómannadaginn, verður blómsveigur lagður að styttu sjómanna í sjómannagarðinum. Síðan verða sjómenn heiðraðir og Gylfi Magnússon heldur ræðu áður en gengið verður til sjómannamessu. Eftir messuna verður kaffisala á vegum slysavarnardeildarinnar Sumargjafar. Dagskránni lýkur síðan með skemmtisiglingu frá löndunarbryggjunni og grillveislu við Þorgrímspall.

 

Hellissandur og Rif

Á Hellissandi og Rifi verður einnig nóg um að vera alla helgina og hefst dagskráin á laugardaginn klukkan eitt. Þar verður keppt í róðri, koddaslag, brettahlaupi, reiptogi, haldin verður lyftarakeppni og skemmtisigling verður í boði. Á sunnudaginn verður sjómannamessa klukkan tíu og klukkan eitt hefst hátíðardagskrá í sjómannagarðinum. Slysavarnadeildin Helga Bárðardóttir sér um sjómannakaffi og kökur að dagskrá lokinni. Síðast en ekki síst verður Sjómannahóf í félagsheimilinu Röst og leika Sigga og Grétar úr Stjórninni fyrir dansi. Hótel Hellissandur ber fram mat og veislustjórn verður í höndum grínistans Sólmundar Hólm.

 

Grundarfjörður

Í Grundarfirði hefst helgin með golfmóti G.Run á Bárarvelli í kvöld, föstudag. Á morgun verður skemmtisigling í boði útgerða um fjörðinn og Samkaup grillar pylsur ofan í gesti að siglingunni lokinni. Á bryggjunni verður keppt í hinni vinsælu þrautabraut og björgunarsveitin Klakkur verður með tæki og tól til sýnis. Í sundlauginni verður boðið upp á keppnisgreinar fyrir krakka þar sem meðal annars verður keppt í koddaslag. Á sunnudaginn verður messa í Grundarfjarðarkirkju og að henni lokinni verður blómsveigur lagður að minnismerki sjómanna fyrir utan kirkjuna. Dagskrá helgarinnar lýkur svo með kaffisölu kvenfélagsins Gleym mér ei í samkomuhúsi Grundarfjarðar.

 

Akranes

Á Akranesi hefst Hátíð hafsins á morgun, laugardag kl. 11 þegar smábátasjómenn bjóða hátíðargestum í siglingu. Grillaðar verða pylsur og við höfnina verður skemmtidagskrá með ýmsum viðburðum og einnig verður þar markaður með útivistarbúnað.  Flest dagskráratriði hefjast klukkan 13:30.  Slysavarnardeildin Líf verður með sjómannadagskaffi í Jónsbúð frá kl. 13:30. Í Fróðá á Safnasvæðinu verður listasmiðja fyrir börnin þar sem hægt verður að mála á tréfiska og senda sjómönnum skilaboð. Á sunnudaginn verður dagskráin hefðbundin og hefst með hátíðarmessu í Akraneskirkju. Síðan verða sjómenn heiðraðir og drukknaðra sjómanna minnst.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is