Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Miðaftann. Þriðji Þórsdagur í Gormánuði
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
15. júní. 2011 02:30

Hlaupararnir eru nú að nálgast Botn í Hvalfirði

Mamman, Kletturinn, Mágkonan og Maraþonmaðurinn komu í gær á Bifröst, en þetta eru gælunefni hlaupahjónanna tveggja sem eru nú að klára hlaupaferð sína hringinn í kringum landið. Fréttir af þessu framtaki fólksins hafa varla farið framhjá neinum, en með þessu vilja þau safna peningum fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna og nefnist söfnunarátakið „Meðan fæturnir bera mig”. Þegar þessi frétt er skrifuð hafa safnast tæplega 9 milljónir króna og hlaupararnir eiga ekki langt eftir að Botni í Hvalfirði, þar sem þeir hvíla sig fyrir lokasprettinn til Reykjavíkur í nótt. Fólkið lagði af stað í morgun frá Bifröst þar sem þau gistu, en í gær hlupu þau frá Hvammstanga. 

Hlaupararnir sögðust vera mjög ánægðir með viðtökurnar sem þeir fengu á Bifröst og að þar hafi verið mjög gott að dvelja. Mamman, Signý Gunnarsdóttir, bloggar um ferðina en hún er íslenskufræðingur og starfaði síðast á Morgunblaðinu. Í bloggi um veruna á Bifröst segir hún; „Á Bifröst býr hlýtt og hjartastórt fólk sem var boðið og búið að dekra við okkur að öllu leiti í dag. Við vorum aðeins of fljót á okkur inn í þetta fallega háskólasamfélag þannig að þeir sem höfðu áætlað að hlaupa með okkur misstu af æfingu dagsins. Eftir kaffisamsæti skelltum við okkur í pottana og Mamman prófaði eitthvað nýtt, að vera í útvarpsviðtali í sundbol inni í sturtuklefa. Skemmtilega einkennileg stund.”

 

Forsaga hlaupsins er sú að sonur Signýjar og Sveins Benedikts Rögnvaldssonar, Gunnar Hrafn, greindist með hvítblæði í byrjun árs 2010 og er nú að komast á beinu brautina aftur eftir stranga lyfjameðferð sem þó er ekki enn lokið. Signý og Sveinn tóku þá ákvörðun í ágúst í fyrra að hlaupa hringferð um landið til styrktar félagi krabbameinssjúkra barna og fengu systur Sveins, Ölmu Maríu og mann hennar Guðmund Guðnason með sér í lið. Hver hlaupari hleypur að meðaltali 24 kílómetra á dag og reynir því verulega á hjónin tvö.

 

Blaðamaður Skessuhorns kom til móts við hópinn og fékk að koma inn í húsbíl þeirra þar sem fólkið hvíldist á meðan einn skokkaði. Í bílnum var hugað að þreyttum fótleggjum. Sagði fólkið að umferðin á þessum fallega þriðjudagsmorgni hefði komið því talsvert á óvart. Hún hefði verið meiri en þau bjuggust við og leist þeim ekkert allt of vel á blikuna, en létu sér hlakka til minni umferðar um Hvalfjörðinn. Versti óvinur þeirra væri hinsvegar rokið en þegar þau hlupu undir Hafnarfjalli fóru hviður þar upp í 15 m/s. Rokið hefði hinsvegar verið að mestu í bakið frá því að þau héldu í suðurátt og það hefði munað miklu.

 

Hægt er að fylgjast með staðsetningu hlauparanna, lesa ferðasöguna og leggja til framlög á heimasíðu átaksins,   www.mfbm.is.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is