Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Náttmál. Þriðji Óðinsdagur í Gormánuði
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
04. júlí. 2011 06:48

Fordæmir ummæla forstjóra Barnaverndarstofu

„Vegna ummæla Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu sem birtust á vef Ríkisútvarpsins 29. júní síðastliðinn get ég ekki orða bundist.  Það hittir okkur illa þá lögreglumenn sem unnið hafa að rannsóknum kynferðisbrota utan Reykjavíkursvæðisins að vera lýstir vanhæfir af manni sem situr í þessu embætti,“ segir Viðar Stefánsson lögreglufulltrúi á Akranesi í tilkynningu sem hann hefur sent frá sér í framhaldi yfirlýsingar Braga Guðbrandssonar. Þar sagði Bragi meðal annars: „Ég er þeirrar skoðunar að það sé kominn tími til þess að kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sé falin rannsókn allra meiriháttar kynferðisbrota sem beinast að börnum. Með þeim hætti held ég að við gætum með miklu tryggari hætti en nú er treyst það að málsmeðferðarhraðinn og öryggið við rannsókn slíkra mála sé til þess fallinn að tryggja hagsmuni barnanna,“ sagði Bragi Guðbrandsson á vef RUV.

Tilefni ummæla Braga var mál sem kom upp á Suðurlandi og mikið hefur verið í fréttum undanfarna daga. Bragi kveðst óánægður með hvernig haldið var á málinu. „Það er óásættanlegt að það taki heilt ár að vinna mál af þessu tagi, og það bendir til þess að lögreglan utan höfuðborgarsvæðisins eigi í basli með að vinna úr þessum málum með viðunandi hætti, jafnframt því að tryggja öryggi barnanna samhliða.“

 

Verst er óöryggið sem ummælin skapa

Viðar Stefánsson lögreglufulltrúi á Akranesi segir óþolandi hvernig forstjórinn talar þarna niður til lögreglunnar utan höfuðborgarsvæðisins: „Lögreglumenn eru vanir skítkasti úr ýmsum áttum, en það er ekki sama hvaðan vont kemur.  Mér er alsendis óljós ástæðan fyrir því að þessi maður, og svo margir aðrir sem ræða þennan viðkvæma málaflokk, þurfa að gera það með þessum hætti, þ.e. með órökstuddum fullyrðingum og upphrópunum.“

Viðar hefur stjórnað rannsóknum í kynferðisbrotamálum á Akranesi um áratuga skeið og síðustu árin á öllu Vesturlandi að auki. Hann segist gera þá kröfu til Braga Guðbrandssonar að hann rökstyðji þá fullyrðingu sem hann setur fram og birti rannsóknir sínar um málshraða, en þær hlýtur hann að hafa gert miðað við ummæli sín. „Það versta í þessu er það óöryggi sem svona ummæli skapa hjá þeim sem síst skyldi, þ.e. þeim sem eru þolendur afbrotanna svo og aðstandenda þeirra, því að yfirlýsingar manna í þessari stöðu hljóta að vera teknar alvarlegar einhversstaðar.“

 

Við íbúa á Vesturlandi vill Viðar segja þetta: „Rannsóknadeild lögreglunnar á Akranesi rannsakar öll þau kynferðisbrot sem kærð eru og eru með brotavettvang á svæðinu.  Það hefur nánast verið undantekningalaus regla að málin hafi forgang fram yfir önnur rannsóknarefni deildarinnar.  Reynt hefur verið að standa eins faglega að rannsóknunum eins og unnt er hverju sinni, m.a. með því að nota ávallt þjónustu Barnahúss við rannsóknir á brotum gegn börnum.  Þá höfum við mikið og gott samstarf við kynferðisbrotadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og notið aðstoðar þeirra í mörgum málum.  Þá höfum við aðgang að tækni og tölvurannsóknum hjá því embætti, en þær deildir þjóna á landsvísu.“

 

Viðar segir að ástæða þess að hann ritar þessar línur vera þær að þessi málaflokkur er svo viðkvæmur að um forstjóri Barnaverndarstofu megi ekki standa uppi gasprandi.  „Um eru að ræða mál þar sem fólk, bæði börn og fullorðnir líða sínar verstu stundir á lífsleiðinni, þegar brotið er gegn þeim og eiga svo e.t.v. eftir að vinna úr málunum allt sitt líf.  Þess vegna er það krafa að menn í háum stöðum séu ekki með órökstutt gaspur í óljósum tilgangi og veki með því óöryggi þeirra landsmanna sem ekki búa á höfuðborgarsvæðinu.  Þeir sem af einhverri ábyrgð vilja gera könnun á þessum málaflokki og fá gagnlegar upplýsingar vil ég benda á að ræða við það fólk sem tekið hefur að sér réttargæslu fyrir þolendur kynferðisbrota, en ekki að alhæfa út frá einhverju einu máli sem upp hefur komið,“ segir Viðar Stefánsson að lokum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is