Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
18. júlí. 2011 02:28

Lauga á Hömrum áttræð í dag

Guðlaug Guðmundsdóttir, betur þekkt sem Lauga á Hömrum af heimamönnum í Grundarfirði, fagnar 80 ára afmælinu sínu í dag en hún er fædd 18. júlí árið 1931. Lauga er fædd að Berserkjahrauni í Helgafellssveit þar sem hún uppalin. Hún kynntist eiginmanni sínum, Herði Pálssyni, þegar hún fór 18 ára gömul til Grundarfjarðar að vinna. Þau giftu sig síðan árið 1952, fóru að búa að Hömrum í Eyrarsveit og áttu saman sex börn. Að Hömrum ráku þau í áraraðir blandað bú með kúm, kindum og hænum. Árið 1985 opnaði Lauga síðan verslunina Hamra í Grundarfirði sem hún rak óslitið í nær tuttugu ár. Þar seldi hún meðal annars byggingavörur, málningarvörur og gjafavöru en margir höfðu það að orði að Hamrabúðin væri eins gott kaupfélag, því þar væri allt til. Lauga er því öllum Grundfirðingum kunnug og óskum við henni innilega til hamingju með daginn.

 

Þess má að lokum geta að opnuviðtal var við Laugu í aðventublaði Skessuhorns á síðasta ári sem má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Hefur alla tíð verið mikið jólabarn

Viðtal við jólabarnið Laugu á Hömrum

 

“Ég er yngst ellefu systkina og á jólunum sátum við öll fjölskyldan í kringum útvarpið og hlustuðum á aftansönginn. Mamma sat á rúminu sínu og söng með og við sungum líka það sem kunnum. Jólagjafirnar voru spil og kerti sem var látið fylgja með, en jólin voru jafn skemmtileg fyrir það. Ég er mjög mikið jólabarn og hef alltaf verið,” sagði Guðlaug Guðmundsdóttir, eða Lauga á Hömrum eins og er betur þekkt sem, í samtali við Skessuhorn í síðustu viku. Blaðamaður leit við að Hömrum, rétt utan Grundarfjarðar, og tók tali á þessari miklu hannyrðakonu, jólabarni og fyrrverandi bónda.

 

Fékk munnhörpu í jólagjöf

Lauga er fædd að Berserkjahrauni í Helgafellssveit þar sem hún, líkt og faðir hennar Guðmundur Sigurðsson, var fædd og uppalin. Móðir hennar, Kristín Pétursdóttir, var hins vegar ættuð úr Svefneyjum á Breiðafirði. Á Hrauni, eins og Berserkjahraun var jafnan kallað í daglegu tali, var torfbær þá er Lauga elst upp. Hann var með baðstofu samt, var klæddur að innan með tré og gólfið var einnig úr tré. Þakið var þó úr torfi. Frá bænum lá gangur sem var með moldargolfi og hellum ofan á því. Í minningunni þótti Laugu þessar hellur einstaklega flottar. “Ein fyrsta minningin mín af jólagjöf var þegar Pétur bróðir hafði farið til sjós 16 ára gamall og gaf mér munnhörpu í jólagjöf þegar hann kom til baka. Mér var bannað að spila á hana á aðfangadagskvöldi og á jóladag en fór þess í stað fram í göng þar sem ég sat ein í myrkrinu á steini og spilaði,” rifjaði Lauga upp. Hún segir þau alltaf hafa borðað hangikjöt á jólunum en á haustin var alltaf reykt kjöt því þá var ekki til neinn kælir eða frystir. “Mamma bakaði síðan alltaf gyðingakökur á jólunum og það er eina smákökutegundin sem ég man eftir að hún bakaði. Pabbi heimasmíðaði jólatréð og við systkinin fórum svo út og sóttum lyng sem við vöfðum í kringum það. Á endunum myndaðist eins og spaði og á hann settum við kerti. Eflaust hefur stafað af þessu mikil eldhætta, en ég man þó ekki eftir að það hafi kviknað í. Þá bjuggum við einnig til músastiga og aðrar skreytingar úr krep-pappír.”

 

Vill halda í gamlar hefðir

Þegar Lauga var 18 ára gömul fór hún til Grundarfjarðar á veturna og vann sem vinnukona. Þar kynntist hún Herði Pálssyni manninum sínum en hann var að vinna við að beita í bænum. Þau giftu sig síðan árið 1952, fóru að búa að Hömrum og áttu saman sex börn. “Við héldum í gömlu hefðirnar varðandi jólin. Jólamaturinn er snæddur klukkan fimm og síðan hlustum við á messuna í útvarpinu. Eftir það eru opnaði pakkar. Einu sinni prófaði ég að fara í messu klukkan sex og þó svo að ég sé mjög trúuð þá kunni ég ekki við það. Vildi heldur halda í þetta gamla og við förum frekar í messu á jóladag. Þegar ég var krakki löbbuðum við að Bjarnarhöfn í messu en þangað kom presturinn frá Stykkishólmi og messaði á jóladag.”

“Ég bakaði alltaf heilmikið þegar krakkarnir voru heima en núna baka ég ekki nema um fjórar smákökusortir. Nú orðið má enginn borða sætar kökur, það eru allir í einhverju bindindi.” Lauga segir vinsælustu smákökurnar sínar vera svokölluð finnsk kaffibrauð og samþykkti jafnframt að deila með okkur uppskriftinni af þeim:

 

Finnsk kaffibrauð

375 gr. hveiti

100 gr. sykur

250 gr. smjörlíki

½ - 1 egg

Aðferð: Hráefninu er öllu hnoðað saman. Deiginu síðan rúllað í lengjur sem eru eins og litli fingur á breidd. Svo er þrýst með þumli ofan á lengjurnar og þær skornar í um 3 sm. langa bita. Bitarnir eru næst penslaðir með eggjablöndu (egg pískuð saman með smá sykri) og síðan dýft í hakkaðar möndlur og grófan sykur. Kökurnar eru síðan bakaðar í 180°c ofni í um korter, eða þangað til þær eru orðnar ljósbrúnar.

 

Forréttindi að eiga ömmu í sveit

Fyrstu árin í búskap Laugu og Harðar voru þau með þó nokkuð margar skepnur á bænum, bæði kýr og kindur. Síðar hættu þau með kýrnar og fjölguðu kindunum þess í stað. “Við byggðum ný fjárhús árið 1976 og vorum mest með um 300 kindur. Árið 2000 létum við allt féð og þá fjölguðum við hænunum. Við vorum mest með um þúsund hænur og keyrðum eggin alltaf út sjálf, bæði hér, inn í Hólm og um tíma í Borgarnes. Margir voru farnir að safna eggjabökkunum og létu okkur fá til baka. Það var voða notalegt enda vel hægt að nota bakkana aftur. Við hættum síðan öllum búskap um síðastliðin áramót og hingað kemur maður innan úr Grundarfirði og sér um hænurnar og þessar tíu kindur sem við eigum eftir.” Önnur hefð sem Lauga heldur fast í er svokölluð réttarhátíð sem hún er orðin víðfræg fyrir í sveitarfélaginu og heldur á hverju hausti. Þá er öllum boðið upp á kaffi og með því í fjárhúsunum að Hömrum að loknum göngum og réttum. “Hingað hafa yfirleitt komið um 80-100 manns. Einu sinni bauðst kona hérna í nálægri sveit að hjálpa mér við að baka en ég sagði við hana að þegar ég er hætt að geta bakað þá mætti hún bara taka við hátíðinni. Annars hafa tengdadætur mínar yfirleitt hjálpað mér í þessu.”

Á Hömrum voru alltaf krakkar í sveit á sumrin og margir sem eiga Laugu og Herði margt að launa. “Á þessum tíma höfðum við svo mikla þörf á krökkum í sveitinni. Þau hjálpuðu mikið bæði í heyskap og með kýrnar. Nú orðið komast krakkar ekki í sveit því það er ekkert fyrir þau að gera. Vélarnar sjá um allt saman. Barnabörnin hafa samt alltaf gaman af því að koma í heimsókn og sagði einn sá yngsti við mig um daginn að það væru sko forréttindi að eiga ömmu í sveit. Þá gæti hann alltaf komið til mín þegar það væri frí í skólanum og svona.” Lauga segir þau Hörð ekki hafa haft mikinn hagnað úr sveitinni og unnu þau alla tíð með búskapnum inni í Grundarfirði. Hann var að beita og gera að fisk á meðan hún vann í frystihúsinu. Árið 1985 tók Lauga síðan afdrifaríka ákvörðun þegar hún ákvað að opna búð.

 

Hamrabúðin var eins og gott kaupfélag

“Ég var með búðina Hamra í Grundarfirði í tæplega tuttugu ár og var það einn besti tími ævi minnar. Mér fannst þetta svo skemmtilegt starf og ég lifði mig svo inní það. Þetta var alveg meiri háttar. Allt byrjaði þetta þegar ég var að vinna fyrir hann Palla son minn við smíðar inni í Grundarfirði. Hann bað mig alltaf að panta fyrir sig hina og þessa byggingarvöruna og úr því varð búð,” segir Lauga er hún rifjar upp árin í búðinni. Þar seldi hún meðal annars byggingavörur, málningarvörur og gjafavöru en margir höfðu það að orði að Hamrabúðin væri eins gott kaupfélag, því þar væri allt til. Lauga stóð yfirleitt sjálf vaktina alla daga í búðinni en í gegnum allan reksturinn var hún nánast aðeins með tvær manneskjur í vinnu. Í kringum jólin skapaðist alltaf mikil stemning í búðinni og muna margir eftir Laugu, jólabarnið sjálft, við afgreiðsluborðið með jólaeyrnalokka, blikkandi barmmerki, piparkökur á boðstólnum og jólatónlistina í bakgrunni. “Það var alltaf mjög gaman í búðinni í kringum jólin; kirkjukórinn kom oft og söng fyrir okkur og svo var ég alltaf öðru hverju með föndurnámskeið í búðinni. Við vorum að mála á keramik og fleira en þessi námskeið voru alltaf mjög vel sótt. Ég hef alltaf verið svo mikið jólabarn en sé líka að það gera ekki allir jafn mikið úr jólunum og ég. Heildsalarnir í búðinni tóku eftir þessum jólaáhuga mínum og voru margir farnir að senda mér ýmislegt í kringum jólin. Ég fékk til dæmis alltaf jólarós í málningarfötu og heilan strigapoka af konfekti. Ég föndra sjálf flest allt jólaskraut og finnst voða notalegt að bjóða barnabörnunum í súkkulaði, smákökur og jólakortagerð í aðventunni.”

 

Nóg að gera alla vikuna

Eins og glöggir lesendur hafa nú þegar gert sér grein fyrir er Lauga mikil handavinnukona og er að eigin sögn á kafi í bútasaum, hekli og öllu öðru. “Ég hugsa að ég hafi prófað flest allt sem til er í handavinnu. Var til dæmis lengi að mála og brenna keramik og postulín. Áhuginn kviknaði af alvöru veturinn 1949-1950 þegar ég var í Húsmæðraskólanum á Löngumýri. Þar lærði ég meðal annars að skera út, skar út hillu sem ég reyndar kláraði ekki fyrr en árið 2002. Síðan hef ég alltaf gefið barnabörnunum bútasaumsteppi þegar þau fermast,” sagði Lauga sem hefur í nógu að snúast þó hún sé hætt að vinna. Tvisvar í viku er leikfimi eldri borgara, þá fer hún að sjálfsögðu alltaf í handavinnuna, bænastund er í kirkjunni á mánudögum, vinahús á miðvikudögum, hún er á glerlistanámskeiði og að vinna fyrir Rauða krossinn í Grundarfirði. “Það er nóg að gera hjá mér alla vikuna. Við erum aðeins byrjaðar í jólaundirbúningnum í handavinnunni, vorum að föndra jólakort í síðustu viku. Svo vorum við að búa til konfekt í vinahúsinu,” sagði Lauga að lokum sem segist sjálf ætla að byrja að skreyta um leið og jólafastan hefst. Jólagardínurnar fái þó kannski að fara upp vikuna áður.

ákj

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is