Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Náttmál. Þriðji Óðinsdagur í Gormánuði
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
20. júlí. 2011 09:02

Sögur af óðum sagðar í Borgarneskirkju í kvöld

Borgfirðingurinn Margrét Brynjarsdóttir mezzosópran og Akureyringurinn Gísli J. Grétarsson gítarleikari og tónskáld, halda tónleika í Borgarneskirkju í kvöld undir fyrirsögninni Sögur af óðum. Ef grannt er skoðað skýrir nafnið sig sjálft. Undanfarin fjögur ár hafa þau stundað nám við tónlistarháskólann í Piteå í Svíþjóð, hún í söng og hann í tónsmíðum og hljómsveitarstjórn. Bæði hafa lokið BA gráðu í tónlist og þegar hafið mastersnám í sínum greinum og heldur Margrét til frekara náms í einsöng í Tónlistarháskóla Noregs, NMH í Osló á komandi hausti. Ástæðan fyrir dvöl þeirra á Íslandi nú er að Eyþór Ingi Jónsson, organisti Akureyrarkirkju, hafði samband við þau, að beiðni Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur, vegna sumartónleikaraðar Akureyrarkirkju. Sigrún Magna vildi gjarnan fá þau til að koma þar fram og gerði parinu þar með kleift að skreppa til Íslands, en þau munu því einnig koma fram í Akureyrarkirkju sunnudaginn 24. júlí n.k. á sumartónleikaröð kirkjunnar.

 

 

 

 

 

 

Til fundar við óperupersónur

„Okkur langar mikið til að kynna hinn bráðskemmtilega heim óperunnar fyrir ungu fólki, í raun fólki á okkar aldri,“ segir Margrét í upphafi máls þegar blaðamaður hafði ákveðið að tefja þau ögn frá æfingum í Borgarneskirkju síðasta mánudag. „Enginn má taka orð mín þannig að tónleikarnir séu fyrir einhvern útvalinn hóp, alls ekki, heldur finnst okkur synd að yngra fólk telur oft að þessi tegund tónlistar sé leiðinleg, sem er mikill misskilningur. Því ákváðum við að setja þessa tónleika upp á ögn annan hátt en kannski er venja. Fólk getur búist við að fá að kíkja inn um skráargat, inn í líf margra persóna, allt frá dramadrottningum til fátækrar ömmu.“ Gísli tekur undir orð Margrétar og bætir við. „Boðið er upp á óperutónlist úr ýmsum áttum og það sem er kannski óvenjulegt og ekki alveg eins og fólk á að venjast er að útsetningarnar eru fyrir gítar og söng. Ég tel ekki að það hafi verið gert áður. Lögin eru flest þekkt úr óperuheiminum þannig að margir ættu að þekkja til. Gítarinn verður raun í aðalhlutverki hér þar sem ég mun spila allan tíman, nema þegar ég þarf að stilla gítarinn,“ segir Gísli kíminn og heldur áfram, „gítarinn mun meira að segja hljóma á meðan Margrét verður með kynningar. Í raun setjum við þetta hljóðfæri í hlutverk hljómsveitar og kórs.“

 

Sömdu óperu við söguna úr Dimmalimm

Eins og fram hefur komið hefur parið stundað nám í Svíþjóð undanfarin ár. Þar var BA verkefnið þeirra að semja óperu upp úr sögunni um Dimmalimm. Gísli gerði tónlistina, Margrét textann og söng jafnframt titilhlutverkið. „Þetta var gífurlega skemmtilegt verkefni, en sannarlega mikil vinna,“ segja þau skötuhjú. „Við vorum svo heppin að fólki hefur líkað verkið vel svo eftir frumsýningu í skólanum okkar í Piteå fórum við með óperuna í tónleikaferð um Norður Svíþjóð og vonandi höfum við fjárhagslega burði til að koma með verkið til Íslands, fyrr en síðar. Eitt af lögunum úr Dimmalimm verður á þessum tónleikum.“

 

Römm er sú taug

Parið heldur tvenna tónleika á Íslandi að þessu sinni. Þeir fyrri verða í Borgarneskirkju, í kvöld miðvikudag og hefjast kl. 20. Reyndar segja þau að fremur óvenjulegt sé að vera með óperutónleika í kirkju. En forsvarsmenn á báðum stöðum bæði í Borgarneskirkju og Akureyrarkirkju voru meira en tilbúnir að leyfa slíkan flutning. En af hverju tónleika í Borgarneskirkju? Margrét verður fyrir svörum: „Borgarneskirkja er í raun kirkjan mín. Þar gekk ég í sunnudagaskóla sem lítil hnáta og fljótlega fór ég að mæta fyrr í sunnudagaskólann til að leggja til af því að mér fannst svo gaman. Síðan kom að því að Jónína E. Arnardóttir fékk mig til að starfa með sér í TTT starfinu. Það hefur líklega verið fyrsta launaða starfið sem ég gegndi. Taugin er því sterk til kirkjunnar og mig langaði að halda tónleika í minni heimakirkju, ef á því væri nokkur kostur. Það breytir hins vegar ekki því að kveikjan að þessu öllu er boðið um að koma og vera flytjendur á sumartónleikaröð Akureyrarkirkju. Þar er hefðin löng fyrir tónleikahaldi á sumrin og einnig að blanda saman þekktum flytjendum og nýjum, ungum tónlistarmönnum sem eru að hasla sér völl og kynna sig. Vegna þessa tilboðs gátum við leyft okkur að koma til landsins og halda þessa tónleika í Borgarnesi. Það er mikill heiður að vera beðinn um að koma fram á sumartónleikunum og vera í hópi þeirra frábæru listamanna sem þar koma fram. Við erum fjórðu í röðinni, en alls verða fimm tónleikar þetta sumarið.“

 

Engin lognmolla

Gísli er hins vegar uppalinn á Akureyri og hefur sterkar taugar til sinnar kirkju. Þar hefur hann sungið með kórnum og einnig samið verk fyrir kammerkórinn Hymnodiu sem frumflutti spunakórverkið Upplifun á Myrkum músíkdögum 2010. Hann segist getað lofað áheyrendum því að engin lognmolla verði á tónleikunum. „Það er stórt markmið hjá okkur að flétta inn leikræna og sjónræna tjáningu í flutning almennt. Það verður ekkert öðruvísi í þetta sinn. Ýmsar persónur munu spretta fram, birtast áheyrendum jafnvel eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Ég held að flestir komi til með að finna eitthvað við sitt hæfi. Alla vega leggjum við upp með það veganesti.“ Ekki er vert að tefja tónlistarfólkið lengur, mál að linni og amen eftir efninu, eins og þar stendur.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is