Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
29. júlí. 2011 10:01

Primus kaffi á Hellnum fær góðar viðtökur

Nýjasta viðbótin í kaffihúsaflóruna á Vesturlandi er Primus kaffi á Hellnum á Snæfellsnesi. Kaffihúsið er í eigu hjónanna Guðlaugar Maríu Bjarnadóttur og Ólafs Hauks Símonarsonar rithöfundar. Guðlaug segir reksturinn hafa farið vel af stað. „Við opnuðum ekki fyrr en um miðjan júní eftir að öll leyfi til rekstursins voru fengin og náðum því ekki inn í neina ferðabæklinga til að kynna okkur. Þetta hefur gengið vel og vaxið hægt og sígandi. Við erum líka heppin með starfsmann sem kemur héðan úr sveitinni og er menntaður bakari. Það hentar auðvitað vel í þessa starfsemi. Svo eru það fjölskyldurnar okkar sem leggja okkur lið.“

 

 

 

 

 

Fimmtíu sæti innan dyra

Guðlaug segir vel hafa gengið í upphafi með góðu samstarfi við heimafólk og þegar blaðamaður Skessuhorns kom við var biðröð eftir veitingum og á meðal þeirra sem þar voru var hópur Kínverja á nokkrum sendiráðsbílum. „Já, Kínverjarnir komu hingað, ávörpuðu mig á íslensku og báðu um 19 fiskisúpur. Það var indælt að fá þennan hóp hingað enda kurteist og gott fólk. Svo hafa komið hingað stærri hópar en það er mjög gott að fá smá fyrirvara á þeim. Við getum auðveldlega tekið á móti 50 manns hér innandyra en í góðu veðri er ekkert mál að bæta við sætum á veröndina hérna fyrir utan.“

 

Nafnið er tenging við Laxness og hitunarbúnaðinn

Um hvort heitið á kaffihúsinu, Primus, sé með skírskotun í séra Jón Prímus, aðalsöguhetjuna í verki Halldórs Laxness; Kristnihald undir Jökli, segir Guðlaug að það sé að hluta. „Sú bók hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og sögusviðið er hér um slóðir þannig að þess vegna liggur það beint við. Primus er líka hitunartæki sem við getum notað til að elda mat og hita okkur ef við erum einhvers staðar án rafmagns, þannig að það getur líka átt við í þessu tilfelli.“ Þau Guðlaug María og Ólafur Haukur eiga hús á Hellnum en hafa þó ekki fasta búsetu þar. „Nei, það hefur ekki verið hingað til en Óli er hérna mikið við skriftir og leitar eftir friði og ró hérna yfir veturinn. Svo er hann alltaf að smíða og dunda sér við uppbyggingu á þessu kaffihúsi,“ segir Guðlaug.

 

Tengingin við Gestastofu tókst vel

Súpur og bökur hvers konar eru í öndvegi á matseðlinum og að sjálfsögðu kaffi og kökur. Staðurinn hefur auk þess vínveitingaleyfi og Guðlaug segist vera með öll möguleg leyfi sem hægt sé að fá, enda hafi tekið tíma sinn að afla þeirra. „Það er gaman að takast á við þetta verkefni. Ég hef fengist við matreiðslu áður bæði hjá bændaferðum og ferðaskrifstofum en ekki verið í svona rekstri áður. Mér finnst tengingin við gestastofu þjóðgarðsins hér við hliðina hafa tekist vel og er nokkuð bjartsýn á þennan rekstur. Ég vona að þetta verði að mestu í höndum heimamanna í framtíðinni þótt ég sé að starta þessu núna,“ segir Guðlaug María og reiknar með kaffihúsið verði ekki opið á veturna. Hún býst við svipuðum opnunartíma og er hjá gestastofunni, eða frá 10. maí fram í miðjan september. Þetta sumar verði að leiða í ljós hvert framhaldið verði en þau hafi átt húsnæðið og því hafi komið upp þessi hugmynd um að nýta það fyrir þennan rekstur.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is