Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
02. ágúst. 2011 03:01

Mikil óvissa ríkir um framtíð dýralækna. Á sama tíma er verið að kynna ný lög um dýravelferð.

Þann 1. nóvember næstkomandi munu breytingar eiga sér stað á dýralækningum í dreifbýli þegar stöðum héraðsdýralækna verður breytt og þeim fækkað. Í stað fjórtán verða þeir sex og umdæmi þeirra stækkuð. Breytingarnar eru þær að störf héraðsdýralækna verða eingöngu eftirlitsstörf og þeir sinna því engum eiginlegum dýralækningum. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur þó gefið út að ríkið muni á einhvern hátt styðja við almennar dýralækningar í dreifbýli til þess að mæta þörfinni en þó er ekki enn orðið ljóst hvernig þeim málum verður háttað. Fulltrúar Dýralæknafélags Íslands fóru á fund Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um miðjan júlí þar sem þeir lýstu áhyggjum sínum vegna þeirrar hættu á að dýralæknaþjónusta leggist af frá og með 1. nóvember á stórum svæðum landsins. Þeir sögðu einnig frá því að dýralæknar sem þjóni afskekktari svæðum séu farnir að leita sér að annarri vinnu þar sem þeim hefur ekki verið tryggð vinna við dýralækningar frá og með 1. nóvember. Héraðsdýralæknar heyra nú undir Matvælastofnun Íslands og engin breyting verður á því.

 

 

 

 

Ný lög um dýravelferð

Á sama tíma eru ný lög um velferð dýra til meðferðar í ráðuneytinu. Lögunum er ætlað að samhæfa stjórnsýsluna í kringum dýravernd sem hingað til hefur verið skipt á milli umhverfisráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Þetta kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, en nú mun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafa yfirumsjón með dýravernd og undirstofnun þess, Matvælastofnun, mun sjá um öll mál sem tengjast henni. Í 33.grein laganna kemur fram að Matvælastofnun hefur heimild til þess að fara á hvern þann stað þar sem dýr eru höfð og kanna aðstæður þeirra og aðbúnað. Væntanlega kemur eftirlitið í hlut héraðsdýralækna en þá vaknar upp sú spurning um hversu auðvelt það verði fyrir eftirlitsmennina að sinna sínum störfum. Þeir þurfa að fara yfir stærri landsvæði en áður og munu því væntanlega eyða meiri tíma í ferðalög en héraðsdýralæknar gera nú. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun er ástæða fækkunar héraðsdýralækna sú að of lítið hlutfall af vinnutíma þeirra nú fari í eftirlit. Með því að fækka þeim og breyta starfslýsingunni þannig að þeir sinni einungis eftirliti, verði eftirlitið skilvirkara og betra. Nýir héraðsdýralæknar eiga því ekki að sinna neinum eiginlegum dýralæknastörfum.

 

Skýtur skökku við

Rúrik Gíslason er héraðsdýralæknir í Stykkishólmi og hann hefur verulega áhyggur af þróun mála. Eins og málin standa í dag hafa engar upplýsingar borist frá ráðuneytinu um hvernig það hyggst standa að málum tengdum dýralæknaþjónustu. „Ég hef sérstaklega áhyggjur af ungum dýralæknum. Þeir geta ekki byggt upp dýralæknaþjónustu algerlega á eigin vegum á þann háttinn að þeir geti lifað af því í dreifbýli. Nú er ekki langt í að 1. nóvember renni upp og auðvitað er fólk farið að hugsa um hvað það ætli að gera. Unga fólkið þarf að fá svar því annars leitar það annað og þá jafnvel til útlanda,” segir Rúrik og tekur fram að honum finnst það skjóta skökku við, að á sama tíma og nýbúið sé að ljúka við gerð frumvarps um dýravernd sé framtíð dýralækna í dreifbýli í óvissu. Í Búðardal verður stöðu héraðsdýralæknis breytt en hún ekki felld niður. Hjalti Viðarsson gegnir starfinu nú en hann hefur ekki gert upp við sig um hvort hann sæki um nýju stöðuna. „Mér finnst það ekki mjög spennandi en ég hef samt ekkert ákveðið hvað gerist. Ég bíð bara eftir því að sjá hvað ríkið ætlar að gera í þessum málum, “ segir Hjalti.

 

Hafa áhyggjur af fækkun dýralækna

Hin nýju lög um dýravernd leysa af hólmi bæði dýraverndunarlög nr. 15/1994 og lög um búfjárhald nr. 103/2002. Frumvarpið verður væntanlega lagt fyrir Alþingi nú í haust og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið tekur við athugasemdum til 20. ágúst. Væntanlega verða fjölmargar athugasemdir gerðar við þetta mál, m.a. frá Landssamtökum sauðfjárbænda, Landssambandi kúabænda og fleirum.  Í samtali við Skessuhorn segir framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, Baldur Helgi Benjamínsson, að meðlimir sambandsins hafi áhyggjur af fækkun dýralækna. „Óvissan um þessi mál gerir engum gott og bændur vilja auðvitað ekki að það verði erfitt að fá dýralækni til sín. Á síðasta aðalfundi Landssambandsins var sú tillaga samþykkt samhljóða að beina því til Matvælastofnunar að fækkun héraðsdýralækna myndi ekki skerða þjónustu við bændur,” segir Baldur en aðalfundurinn fór fram í mars síðastliðnum. „Það gefur líka auga leið að fækkun dýralækna leiðir ekki til aukinnar velferðar dýra. Ef lækniskostnaður verður mjög dýr þá eru meiri líkur á því að bændur sleppi því að kalla þá til, sem gerir engum gott,” segir Baldur.

 

Tollur á landsbyggðina

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda tekur í svipaðan streng og segir að sauðfjárbændur hafi einnig miklar áhyggjur af óvissunni. „Sauðfjárrækt er náttúrulega mest í dreifbýli og þess vegna kemur þetta sér ekki vel fyrir okkur. Okkur finnst einnig margt vera mjög óljóst í frumvarpinu um dýravelferð. Við höfum áhyggjur af aukinni leyfisskyldu og sömuleiðis af þeim kostnaði sem fylgir auknu eftirliti,” segir Sigurður.

Haraldur Þórarinsson formaður Landssambands hestamannafélaga segir að þessar breytingar á starfi héraðsdýralækna séu ekkert annað en enn einn tollurinn á landsbyggðina. Mun meira sé lagt í þjónustu á höfuðborgarsvæðið á meðan landsbyggðin sitji á hakanum þrátt fyrir allt tal um landsbyggðarstefnu. „Við skorum á landbúnaðarráðuneytið að gera úrbætur á þessu, við höfum að sjálfsögðu miklar áhyggjur af þessu,” segir Haraldur en tekur þó fram að sambandið eigi enn eftir að funda um málið og gera athugasemdir.

Ekki fengust upplýsingar varðandi málið frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu vegna sumarleyfa.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is