Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
04. ágúst. 2011 06:30

Kæra ákvörðun um stækkun iðnaðarsvæðis á Grundartanga

Sigurbjörn Hjaltason á Kiðafelli í Kjós og Ragnheiður Þorgrímsdóttir á Kúludalsá í Hvalfjarðarsveit hafa kært til innanríkisráðu-neytisins ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar um breytingu á aðalskipulagi, en breytingin varðar stækkun iðnaðarsvæðis á Grundartanga. Í fyrsta lagi kæra þau ákvörðun sveitarstjórnarmannsins Sævars Ara Finnbogasonar um að víkja af fundi vegna meints vanhæfis síns til að fjalla um breytingu á aðalskipulagi. Telja þau hann ekki hafa verið vanhæfan. Í öðru lagi kæra þau því þá annmarka á málsmeðferð sveitarstjórnar varðandi hið meinta vanhæfi Sævars Ara. Í þriðja lagi kæra þau þátttöku sveitarstjórnarmannsins og oddvitans Sigurðar Sverris Jónssonar í undirbúningi málsins, meðferð og afgreiðslu. Telja þau Sigurð Sverri hafa verið vanhæfan til að koma að ákvörðuninni.

 

 

 

Tillögunni ekki breytt þrátt fyrir fjölda athugasemda

 

Í málsgögnum er aðdragandi þessa máls rakinn. Þar kemur fram að fyrirtækið Faxaflóahafnir sf. Hafi óskað eftir því við Hvalfjarðarsveit að nýgerðu aðalskipulagi sveitarfélagsins yrði breytt þannig að tilteknu athafnasvæði á Grundartanga yrði breytt í iðnaðarsvæði og þar heimiluð starfsemi sem hefði í för með sér meiri umhverfisáhrif en áður hefði verið gert ráð fyrir á þessu svæði. Tillaga að breytingunni var auglýst af sveitarfélaginu og bárust ríflega fimmtíu athugasemdir við hana, en skipulagsnefnd mat að engin þeirra gæfi tilefni til breytinga á tillögunni. Hún var því samþykkt á fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þann 14. júní síðastliðinn.

Ragnheiður Þorgrímsdóttir var ein þeirra sem sendi inn athugasemd við breytingunni á aðalskipulagi og segir hana að öllum líkindum leiða til enn meiri mengunar frá svæðinu í framtíðinni. Ragnheiður hefur, sem kunnugt er, farið fram á að óútskýrð veikindi í hrossum á Kúludalsá verði rannsökuð en grunur leiki á að orsök þeirra sé mengun frá Grundartangasvæðinu.

Sigurbjörn Hjaltason sendi einnig inn athugasemd en hann segir nú þegar álag vegna mengandi starfsemi vera meira en ráð var fyrir gert vegna byggingar álvers. Ekki sé boðlegt gagnvart íbúum fjarðarins og þeirri atvinnustarfsemi er þeir stunda að auka enn á mengandi starfsemi.

 

Atkvæði Sævars Ara hefði getað ráðið úrslitum

 

Sævar Ari Finnbogason lýsti sig sjálfur vanhæfan þegar kom að afgreiðslu á málum frá skipulags- og byggingarnefnd og vék af fundi. Engar formlegar umræður, né atkvæðagreiðsla um hæfi hans, fóru fram. Á næsta fundi sveitarstjórnar bókar Sævar Ari um málið: “[...] Í þessu tilfelli var fjallað um athugasemdir vegna skipulagsbreytinga og meðal þeirra er persónuleg athugasemd frá foreldrum mínum. Ég tel því augljóst að ég hafi verið vanhæfur til að fjalla um þá athugasemd í það minnsta, bæði í skilningi samþykkta sveitarfélagsins, sveitarstjórnar- og stjórnsýslulaga. Ég tel ennfremur að það væri í það minnsta óverjandi í siðferðilegu tilliti, ef ekki lagalegu, að ég fjallaði um hinar athugasemdirnar þar sem þær fjalla að stórum hluta um sömu efnisatriði.”

 

Þau Sigurbjörn og Ragnheiður segja hins vegar að þar sem hvorki Sævar Ari sjálfur, né foreldrar hans, hafi verið beinir aðilar að því máli sem til meðferðar var, hafi hann ekki verið vanhæfur. Allir íbúar Hvalfjarðarsveitar, og margir aðrir, hafi hagsmuni af þeim ákvörðunum sem teknar eru um mengunarvaldandi atvinnustarfsemi á Grundartanga. Ef svo strangar kröfur væru almennt gerðar til hæfis sveitarstjórnarmanna væri mjög erfitt fyrir stjórnsýslustofnanir á sveitarstjórnarstigi að starfa eðlilega, einkum í fámennum sveitarfélögum. Lögin geri ráð fyrir að venslamenn starfsmanns þurfi að eiga einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta til að það valdi vanhæfi hans, eða þá að fyrir hendi séu aðstæður sem almennt teljist til þess fallnar að draga úr trú á óhlutdrægni hvers venjulegs manns. Því fari fjarri að svo sé í þessu tilfelli.

 

Kærendur segja Sævar Ara hafa skyldum að gegna gagnvart kjósendum sínum. Haft hafi verið eftir honum í umræðunni að hann ætlaði ekki að greiða atkvæði með umræddri breytingu á aðalskipulagi, jafnvel þótt það kostaði slit á núverandi meirihlutasamstarfi í sveitarstjórn. Atkvæði hans hefði því getað ráðið úrslitum um niðurstöðu þessa umdeilda máls, hefði hann fylgt sannfæringu sinni.

 

Oddvitinn vanhæfur vegna hagsmunaárekstra

 

Sigurður Sverrir Jónsson er oddviti sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar. Hann situr einnig í stjórn Faxaflóahafna sf. sem kjörinn fulltrúi frá sveitarfélaginu sem á 9,24% hlut í Faxaflóahöfnum. Í málsgögnum segir ennfremur að hagsmunir Faxaflóahafna, þar sem Sigurður Sverrir á sæti í stjórn, séu ekki endilega þeir sömu og hagsmunir sveitarfélagsins Hvalfjarðarsveitar. Rekstur Faxaflóahafna sé í beinu ágóðaskyni en rekstur sveitarfélags snúi meðal annars að því að vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna. Sem stjórnarmaður í fyrirtæki hafi Sigurði Sverri talið sér skylt að sýna félaginu hollustu þegar um er að ræða mál sem varða hagsmuni félagsins. Þá taki hann þóknun fyrir stjórnarsetu í Faxaflóahöfnum sem nemi allnokkurri fjárhæð. Af þeirri ástæðu einni telja kærendur tilefni til að ætla að til hagsmunaárekstra geti komið, sitji sami maður í stjórn fyrirtækisins og í sveitarstjórn sem svo tekur ákvarðanir um umsóknir fyrirtækisins.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is